Hjartasjúkdómafélagið
Hjartasjúkdómafélag íslenskra lækna var stofnað 23. febrúar 1968. Stofnandi félagsins og fyrsti formaður þess var Sigurður Samúelsson hjartalæknir. Fyrsti gjaldkeri félagsins var Jónas Hallgrímsson. Félagið er aðili að Heimssamtökum hjartalækna og Evrópusamtökum hjartalækna.
Þórarinn Guðnason fjallar um félagið í grein í 12. tölublaði Læknablaðsins 2015[1]. Þar segir:
Í félaginu eru allir hjartalæknar, þar með taldir hjartalyflæknar, hjartaskurðlæknar og barnahjartalæknar. Auk þess hafa aukaaðild ýmsir aðrir læknar sem sinna hjartasjúklingum mikið, eins og svæfingalæknar, innkirtlalæknar og heimilislæknar. Tilgangur Hjartasjúkdómafélagsins er margþættur og kraftur í starfsemi þess.
Í fyrsta lagi er tilgangur félagsins faglegur og vísindalegur, það er að stuðla að viðhaldsmenntun og fræðslu lækna sem sinna hjartasjúklingum. Félagið heldur 4-5 fræðslufundi á ári og fær oft erlenda fyrirlesara. Í annan stað er félagið hagsmunafélag hjartalækna í málum sem á þeim brenna. Í þriðja lagi er félagið yfirvöldum til ráðgjafar í málum sem varða hjartalækningar, til dæmis með umsögnum um lagafrumvörp. Í fjórða lagi stuðlar það að forvörnum í hjarta og æðasjúkdómum. Félagið hefur til dæmis unnið að tóbaksvörnum og baráttu gegn transfitu í matvælum á nýliðnum árum. Hið fimmta er að stuðla að notkun klínískra leiðbeininga innan hjartalækninga. Hefur þá mest verið stuðst við leiðbeiningar Evrópsku hjartalæknasamtakanna, European Society of Cardiology (ESC), enda kemur félagið að gerð þeirra árlega. Í sjötta lagi sinnir félagið alþjóðlegum samskiptum, ber þar hæst norrænt samstarf. Norrænu og baltnesku hjartalæknafélögin halda alþjóðlegt vísinda- og fræðsluþing, Nordic Baltic Congress of Cardiology (NBCC), annað hvert ár og var það til dæmis haldið á Íslandi með myndarbrag árin 1989, 1999 og 2009. Samskipti við Evrópu og ESC eru mikil og félagsmenn eru allir um leið félagsmenn í ESC. Hjartasjúkdómafélagið er virkur þátttakandi á árlegu þingi ESC (30.000 þátttakendur) og hefur þar sýningarbás. Félagsmenn eru þar með vísindaframlög, boðsfyrirlestra og sinna fundastjórn. Félagið sækir einnig aðra fundi ESC: formannafund ESC, fundi um innleiðingu klínískra leiðbeininga og fundi um menntun hjartalækna. ESC sinnir forvarnastarfi á vegum Evrópusambandinu með það að markmiði að bæta hjartaheilsu í álfunni. Íslenskir hjartalæknar hafa látið sig þessi mál varða og unnið að forvörnum, skipulagningu þinga, ritstjórn, útgáfu og gagnaöflun á vegum ESC til að stuðla að þessu. Í sjöunda lagi er Hjartasjúkdómafélagið með vísindasjóð sem veitt hefur fé til vísinda og fræðslustarfa. Áttunda verkefni félagsins er að stuðla að nýliðun í hópi hjartalækna. Félagið hefur í samstarfi við ESC boðið verðandi lyflæknum og hjartalæknum á ESC-þingið og greitt fyrir þá ráðstefnugjald eða hluta ferðakostnaðar. Félagið býður verðandi hjartalæknum sem eru í sérnámi hérlendis eða erlendis eða hafa nýlega lokið sérnámi að gerast félagsmenn.
Hlutverk
[breyta | breyta frumkóða]Félagið sendir fulltrúa á fundi evrópska og alþjóðafélaga hjartalækna og heldur fræðslufundi á Íslandi um hjartasjúkdóma. Norrænar ráðstefnur hjartalækna voru haldnar á Íslandi árið 1989, 1999 pg 2009 en þá höfðu Eystrasaltslöndin bæst í hópinn. Næsta ráðstefna Nordic-Baltic Alliance eins og samband Norrænu og Eystrasalst hjartalæknasamtakanna heitir á ensku verður haldin í Helsinki í Finnlandi í júní 2019 en árið 2021 er aftur komið að Íslandi að halda þessa ráðstefnu. Félagið hefur tekið þátt í samvinnu Evrópulandanna og fleiri við gerð kliniskra leiðbeininga Evrópusamtaka hjartalækna[2] (European Society of Cardiology ESC) og fulltrúar þess hafa sótt aðalfundi, fundi um menntunarmál, gæðaskráningu og kliniskar leiðbeiningar þeirra samtaka. Auk þess hefur félagið látið sig málefni hjartalækninga og forvarna hjarta og æðasjúkdóma varða og verið stjórnvöldum til ráðgjafar og skrifað umsagnir um m.a. lagafrumvörp ofl. Félagið vann á árum áður að öðrum framförum í hjartalækningum svo sem því að teknar voru upp opnar hjartaaðgerðir og kransæðaþræðingar og víkkanir á Íslandi en sú saga er rakin nánar annarrsstaðar á síðunni.
Formenn
[breyta | breyta frumkóða]- Sigurður Samúelsson, 1968–
- Árni Kristinsson
- Einar Baldvinsson
- Guðmundur Oddsson
- Magnús Karl Pétursson
- Þórður Harðarson
- Gestur Þorgeirsson
- Ragnar Danielsen
- Axel Sigurðsson
- Karl Andersen
- Þórarinn Guðnason, 2011–2018
- Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir 2018-
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Árni Kristinsson, Merkismanns minnst á afmælisári. Læknablaðið 2018:6.
- ↑ „Sérgrein. Hjartalækningar, stór sérgrein í hraðri framþróun. Þórarinn Guðnason“. Læknablaðið. Sótt 26. október 2021.
- ↑ „Icelandic Society of Cardiology“. www.escardio.org. Sótt 26. október 2021.[óvirkur tengill]