Skrápflúra
Skrápflúra | ||||||||||||||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
Skrápflúra
| ||||||||||||||
Vísindaleg flokkun | ||||||||||||||
| ||||||||||||||
Tvínefni | ||||||||||||||
Hippoglossoides platessoides Fabricius (1780) |
Skrápflúra einnig nefnd stórkjafta (fræðiheiti: Hippoglossoides platessoides) er þunnur flatfiskur af flyðruætt. Hún hefur snarpari viðkomu en ættingjar sínir vegna hreistursins sem er mun grófara, en þaðan fær hún nafn sitt. Flúran lifir helst á sand- eða leirbotni eins og flestir flatfiskar og nærist þar á ýmsum smádýrum til að byrja með en stækkar svo við sig. Skrápflúran er einn af þeim fiskum sem hefur nýlega uppgötvast sem verðmæt tegund og hefur hún orðið mikilvægari á síðustu árum.
Fiskveiðiárið 2018/2019 voru veidd rúmlega 29 tonn af skrápflúru [1], en afli hefur farið minnkandi. Fiskveiðiárið 2010/2011 var til að mynda heildarafli 193 tonn, og 148 tonn árið eftir [2]
Lýsing
[breyta | breyta frumkóða]Skrápflúran er frekar langvaxin, þunn og breið. Haus er miðlungsstór, kjaftur frekar stór og ná skoltar aftur móts við mitt hægra auga. Augu eru stór og er vinstra augað nokkuð aftar en það hægra. Uggar eru venjulegir flatfiskuggar og smáyddir í miðjuna. Hægri hliðin er rauðgrá, stundum dökkgrá, vinstri hliðin er hvít eins og á öðrum flatfiskum. Hreistur er hrjúft og stórgert eins og nafn hennar bendir til.[3]
Lífshættir
[breyta | breyta frumkóða]Skrápflúran er botnfiskur sem heldur sig helst á leir- og leðjubotni á 5-250 m dýpi. Hrygning skrápflúru við Ísland er í júní-júlí aðallega á 50-100 m dýpi allt í kringum landið. Eggin eru nokkuð stór, 2,6-3,3 mm í þvermál. Fyrst eru þau sviflæg en sökkva síðan. Klak tekur um 11-14 daga við 4 °C heitan sjó. Lirfan er á bilinu 4-6 mm við klak. Þegar seiðin eru 2-4 cm löng leita þau til botns og hafa fengið útlit foreldra sinna. Lengsta skrápflúran sem veiðst hefur við Ísland var 56 cm og veiddist hún suðaustur af Glettinganesi árið 1992.[3]
Fæða
[breyta | breyta frumkóða]Fæða er aðallega allskonar botndýr, skeldýr, bustaormar og krabbadýr. Einnig eitthvað af sniglum, fiskseiðum og öðrum smáfiskum. Stærri skrápflúran étur aðallega loðnu og litla fiska.[4]
Nytsemi
[breyta | breyta frumkóða]Skrápflúran er einn algengasti fiskurinn hér við land í fjölda talið, en þar sem hún er svo smá þá er lífmassi stofnsins ekki stór. Hér áður fyrr var henni hent frá borði þar sem ekki var markaður fyrir hana, en nú er hún seld á markaði erlendis.[4] Kvóti fyrir fiskveiðiárið 2008/2009 er 1.072 tonn en þó er mjög lítið búið að veiða af þeim kvóta ennþá eða rétt um 17%. Á síðasta kvótaári var kvótinn 1.000 tonn eða 267 þorskígildi, þar sem að þorskígildisstuðull skrápflúru var 0,29 það árið. Mest var veitt af skrápflúru árið 1996 eða um 6.500 tonn.[5]
Kvóti fyrir fiskveiðiárið 2019/2020 er rúm 13 tonn og þorskígildisstuðull skrápflúru 0,37 [6]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Finna skip | Afli allar tegundir“. Vefur Fiskistofu. Sótt 11. október 2019.
- ↑ Hafrannsóknastofnun (2019). Skrápflúra. Ástand nytjastofna sjávar og ráðgjöf 2019. Sótt af https://www.hafogvatn.is/static/extras/images/28-LongRoughDab%20(1)1141523.pdf
- ↑ 3,0 3,1 Karl Gunnarsson, Gunnar Jónsson & Ólafur Karvel Pálsson (1998). Sjávarnytjar. Reykjavík: Mál og menning.
- ↑ 4,0 4,1 Gunnar Jónsson & Jónbjörn Pálsson (2007). Íslenskir fiskar. Reykjavík: Alfræði Vöku-Helgafells.
- ↑ Þorsteinn Sigurðsson & Guðmundur Þórðarson (2008). Ástand nytjastofna á Íslandsmiðum 2007/2008 - aflahorfur fiskveiðiárið 2008/2009, fjölrit nr. 138. Reykjavík: Hafrannsóknarstofnunin.
- ↑ „Úthlutun aflaheimilda fiskveiðiárið 2018/2019 | Úthlutað aflamark“. Vefur Fiskistofu. Sótt 11. október 2019.