Fara í innihald

Heinz-Harald Frentzen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Heinz-Harald Frentzen

Heinz-Harald Frentzen (f. 18. maí 1967 í Mönchengladbach) er þýskur ökuþór og tók þátt í Formúlu 1 kappakstri 1994-2003. Hann sigraði í þremur keppnum og náði öðru sæti í stigagjöf ökumanna 1997.

Keppnisferill[breyta | breyta frumkóða]

Ýmis mót[breyta | breyta frumkóða]

Heinz-Harald Frentzen fæddist í þýsku borginni Mönchengladbach. Faðir hans var Þjóðverji, en móðir hans Spánverji. Frentzen var aðeins 13 ára þegar hann hóf keppni í Kart-keppni og varð þýskur unglingameistari ári síðar. Þegar hann var 16 ára kynntist hann Michael Schumacher í heimaborg hins síðarnefnda, Kerpen. Þar hafði Schumacher verið einvaldur í Kart-keppni en Frentzen sigraði hann strax í fyrstu keppni. 1986 hóf Frentzen keppni í atvinnukappakstri, Formúlu Ford 2000. Strax á fyrsta ári náði hann öðru sæti í stigagjöf ökumanna. Tveimur árum síðar varð hörð keppni um fyrsta sætið. Hún endaði á því að Austurríkismaðurinn Karl Wendlingar sigraði en Frentzen og Schumacher urðu saman í öðru sæti. Þessir þrír ökuþórar áttu eftir að etja kappi oftar. 1991 skipti Frentzen yfir í Formúlu 3000 en þar voru hann og Wendlingar á tímabili samherjar.

Formúla 1[breyta | breyta frumkóða]

Frentzen að keppa fyrir Jordan-liðið

1994 tók Frentzen í fyrsta sinn þátt í Formúlu 1 og keppti fyrir Sauber-liðið. Fyrsta mótið hans var Brasilíukappaskturinn og ók hann út af. Seinna á þessu ári létust ökuþórarnir Ayrton Senna og Roland Ratzenberger. Auk þess lenti Wendlinger í hörðum árekstri í Mónakó og lá í dái í nokkrar vikur. Þessir atburðir voru mikið áfall fyrir Frentzen, sem ekki náði miklum árangri hjá Sauber næstu þrjú árin. Williams-liðið bauð honum að taka sæti Senna en hann hafnaði því. 1997 tók hann hins vegar boði Williams og tók þar sæti Damons Hill, sem hafði orðið heimsmeistari með liðinu. Strax á fyrsta ári sínu hjá liðinu tókst honum að landa fyrsta sigri sínum, er hann kom fyrstur í mark í Imola á undan Michael Schumacher og Eddie Irvine. Þetta ár var hans besta í Formúlu 1 en hann náði öðru sæti í stigagjöf ökumanna. Heimsmeistari var samherji hans Jacques Villeneuve. Á næsta ári var ýmsum reglum í Formúlu 1 breytt og reyndist Williams liðið ekki vel í stakk búið til að aðlagast nógu vel. Villeneuve og Frentzen stóðu sig báðir frekar illa. 1999 skipti Frentzen yfir í Jordan-liðið og stóð sig mjög vel. Á því ári náði hann að sigra tvisvar (í Magny-Cours í Frakklandi og í Monza á Ítalíu), einu sinni lenti hann í öðru sæti og einu sinni í þriðja sæti. Þegar uppi var staðið náði hann þriðja sæti í stigagjöf ökumanna, á eftir Mika Häkkinen og Eddie Irvine. Fjögur síðustu ár sín í Formúlu 1 voru ekki sérlega gæfurík fyrir Frentzen. Hann náði á þeim tíma aðeins þrisvar sinnum þriðja sæti. 2001 ók hann fyrir Prost, 2002 fyrir Arrows og 2002-2003 fyrir Sauber. Síðast keppti Frentzen í Japanskappakstrinum 2003.

Önnur mót[breyta | breyta frumkóða]

2004 keppti Frentzen fyrir Opel í DTM (Deutsche Tourenwagen-Masters), þar sem aðallega er keppt í Þýskalandi á þýskum bílum. Frentzen keppti fyrst fyrir Opel, síðan fyrir Audi. Síðustu ár hefur hann keppt á hinum og þessum mótum, sérstaklega á Speedcar Series mótum í Asíu.

Persónulegt[breyta | breyta frumkóða]

  • Sökum þess að Heinz-Harald Frentzen er með langt og óþjált nafn, er hann oft nefndur HHF.
  • Frentzen er kvæntur og þrjár dætur. Fjölskyldan býr í Mónakó.

Árangur[breyta | breyta frumkóða]

Ár Keppnislið Fj. keppna Sigur 2. sæti 3. sæti Stig Sæti ökumanna
1994 Sauber 15 - - - 7 13.
1995 Sauber 17 - - 1 15 9.
1996 Sauber 16 - - - 7 12.
1997 Williams 17 1 2 4 42 2.
1998 Williams 16 - - 1 17 7.
1999 Jordan 16 2 1 3 54 3.
2000 Jordan 17 - - 1 11 9.
2001 Jordan 10 - - - 6 13.
2001 Prost 5 - - - 0 13.
2002 Arrows 11 - - - 2 18.
2002 Sauber 1 - - - 0 18.
2003 Sauber 16 - - 1 13 11.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]