Harold Lasswell
Harold Dwight Lasswell (13. febrúar 1902 – 18. desember 1978) var bandarískur stjórnmálafræðingur sem er þekktastur fyrir kenningar sínar um fjölmiðla og áróður. Hann lærði við Chicago-háskóla og var hluti af Chicago-skólanum sem var undir áhrifum frá gagnhyggju félagsvísindamanna á borð við George Herbert Mead. Kenningar hans um áróður byggja á rannsóknum á áróðurskvikmyndum nasista í Þýskalandi.
Áróðurskenningar hans voru undir áhrifum frá kenningum Freuds um dulvitundina. Samkvæmt kenningu Lasswells nýtir áróður sér tákn sem virkja hluta dulvitundarinnar til að beina hugrænni orku í ákveðna ferla og hafa áhrif á væntingar viðtakenda. Mikilvægi kenningarinnar felst meðal annars í því að líta á viðtakendur áróðurs sem fyrirfram mótaða (af gildum og væntingum) og þannig virka viðtakendur, en ekki óskrifað blað sem áróður hefur bein áhrif á.
Hann er þekktur fyrir skilgreiningu sína á samskiptum sem „hver segir hvað við hvern eftir hvaða leið með hvaða afleiðingum“ („Who says what to whom in what channel with what effect“), og skilgreiningu sína á stjórnmálum sem „hver fær hvað, hvenær og hvernig“ („Who gets what, when, and how“).
Helstu verk
[breyta | breyta frumkóða]- Propaganda Technique in the World War (1927)
- World Politics and Personal Insecurity (1935)
- Politics: Who Gets What, When, How (1935)
- „The Garrison State“ (1941) - grein í American Journal of Sociology
- Power and Personality (1948)