Harmkvæli Maríu meyjar
Harmkvæli Maríu meyjar, sorgarraunir Maríu meyjar, sjö sorgir Maríu eða harmkvælin sjö eru heiti yfir sjö skilgreindar sorgir Maríu meyjar sem hún mátti þola á æviskeiði sínu vegna sonar síns Jesú Krists. María mey er auk þess nefnd hin sorgmædda móðir (latína: Mater Dolorosa).
Harmkvæli Maríu er algengt mótíf rómversk-kaþólskra tilbeiðslumynda og líkneskja. María er gjarnan sýnd á átakanlegan og harmþrunginn hátt þar sem sjö sverð, tákn harmkvælanna, eru rekin henni í hjartastað, sbr. spádómsorð öldungsins Símeons, Lúk. 2:35: „Sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni“. Í Rétttrúnaðarkirkjunni er spádómsorða Símeons minnst á sambærilegum íkonum og í hátíðarmessu 2. febrúar þar sem haldið er upp á atburðinn þegar Jesús var færður Drottni í Musterinu.
Í rómversk-kaþólsku kirkjunni er harmkvæla Maríu minnst þann 15. september og í sumum kaþólskum löndum einnig á föstudegi fyrir pálmasunnudag. Oft er hluti messunnar sem þá er sungin miðaldasálmurinn Stabat Mater.
Harmkvælin sjö
[breyta | breyta frumkóða]Harmkvælin eiga við sjö atburði úr lífi Maríu sem greint er frá í guðspjöllunum:
- Spádómur Símeons (Lúk. 2:34–35).
- Flóttinn til Egyptalands (Matt. 2:13–18).
- Jesús týnist í Musterinu í Jerúsalem (Lúk. 2:43–52).
- María mætir syni sínum á leiðinni til Golgata (Lúk. 23:27–31).
- Krossfesting Jesú að Maríu móður hans ásjáandi (Jóh. 19:25–27).
- Jesús tekinn ofan af krossinum, María heldur á honum látnum í fangi sér (Matt. 27:57–61).
- Jesús er greftraður fyrir tilstilli Jósefs af Arímaþeu (Jóh. 19:38–42).
Í rómversk-kaþólskri list eru einstaka harmkvæli stundum tekin fyrir sérstaklega, s.s. á Pietà-myndum.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Our Lady of Sorrows“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 29. mars 2019.