Fara í innihald

Hans Jónatan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Hans Jonatan)
Minnismerki til heiðurs Hans Jónatan var reist á Kallabakka árið 2021.

Hans Jónatan (1784–1827) var hörundsdökkur þræll sem fæddist á St. Croix í Karíbahafi og settist síðar að á Íslandi. Hann var verslunarstjóri hjá Ørum og Wulff á Djúpavogi 1818–1827. Hans átti að minnsta kosti tvö börn á Íslandi sem frá er kominn mikill ættbogi.

Hans var áður þræll Heinrichs Ludvig Ernst von Schimmelmann, landsstjóra á Saint Croix í Karíbahafinu, og er stundum talinn vera launsonur hans. Móðir hans var svört ambátt að nafni Emilia Regina.

Hans Jónatan fæddist í þrældóm á plantekru á eyjunni Saint Croix á Karíbahafi. Eyjan hafði orðið dönsk nýlenda árið 1733 þegar danska Vestur-Indíafélagið keypti hana af Frakklandi. Óvíst er um faðerni Hans Jónatans, en í ævisögu sinni um hann færir Gísli Pálsson rök fyrir að faðirinn hafi verið hvítur Dani að nafni Hans Gram, sem var ritari eiganda Hans Jónatans í þrjú ár. Móðir Hans Jónatans var Emilia Regina, þeldökk húsambátt sem er fyrst getið í rituðum heimildum árið 1773 á plantekrunni La Reine á Sainte-Croix. Árið 1788 eignaðist Emilia dóttur, Önnu Maríu, í þetta sinn með blökkumanni sem einnig var þræll. Afdrifa þeirra er ekki getið í rituðum heimildum.[1] Ekkert var vitað um forfeður Hans í Vestur-Afríku fyrr en greining á erfðamengi hans var gerð á 21. öld.[2]

Hans Jónatan var í eigu Heinrichs Ludvig Ernst von Schimmelmann og eiginkonu hans, Henríettu Katrínar.

Líf í Danmörku

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1789 flutti Schimmelmannfjölskyldan til Kaupmannahafnar eftir að rekstur plantekrunnar brást. Fjölskyldan tók Emilíu Regínu og síðar Hans Jónatan með sér. Stuttu síðar lést Heinrich og eftirlét Hans ekkju sinni, Henríettu Katrínu. Árið 1801, þegar Hans var sautján ára, strauk hann úr þrældómi og gekk í danska sjóherinn. Hann tók þátt í sjóorrustunni við Kaupmannahöfn árið 1801 og hlaut viðurkenningu fyrir frammistöðu sína. Danski krónprinsinn Friðrik gaf Hans Jónatan frelsi sitt að launum.

Eftir frelsunina lét Henríetta handtaka Hans og hélt því fram að hann tilheyrði henni með réttu og að hún hefði ætlað sér að selja hann í Vestur-Indíum. Hans Jónatan og lögfræðingur hans tóku málið fyrir rétt og færðu rök fyrir því að þótt þrælahald væri löglegt í dönsku Vestur-Indíum væri það bannað í Danmörku sjálfri og því mætti ekki halda Hans Jónatan í þrældómi áfram. Dómarinn, sem var Anders Sandøe Ørsted, síðar forsætisráðherra Danmerkur, dæmdi engu að síður gegn Hans Jónatan í málinu (Generalmajorinde Henriette de Schimmelmann contra mulatten Hans Jonathan 1802) og úrskurðaði þann 31. mars árið 1802 að flytja bæri Hans Jónatan aftur til Vestur-Indía.[3][4]

Líf á Íslandi

[breyta | breyta frumkóða]
Verslunarstöðin á Djúpavogi, þar sem Hans Jónatan vann.

Hans Jónatan strauk enn á ný eftir að hafa tapað dómsmálinu og dönsk stjórnvöld komust aldrei að því hvað varð um hann. Það var ekki fyrr en á tíunda áratugi 20. aldar að sögu hans var púslað saman. Árið 1802 kom Hans Jónatan til Djúpavogs á Íslandi. Ein af fyrstu heimildunum sem til eru af Hans Jónatan á Íslandi er dagbókarfærsla norska kortagerðarmannsins Hans Frisaks frá því 4. ágúst 1812:

Afgreiðslumaðurinn við verslunina hér er frá Vestur-Indíum, ber ekkert ættarnafn … en kallar sig Hans Jónatan. Hann er mjög dökkur á hörund og er með kolsvart hrokkið hár. Faðir hans er evrópskur en móðirin negri. Hann var tólf ára gamall þegar hann kom til Danmerkur frá Vestur-Indíum ásamt Schimmelmann landstjóra og tuttugu og eins árs þegar hann kom hingað til lands fyrir sjö árum.

Frisak réð Hans Jónatan sem leiðsögumann. Hans bjó og vann fyrir sér sem bóndi á Borgargarði í þjónustu dönsku verslunarstöðvarinnar á Djúpavogi. Hann varð verslunarstjóri búðarinnar árið 1819.[3] Í febrúar árið 1820 hafði Hans kvænst Katrínu Antoníusdóttur frá Hálsi. Hjónin eignuðust þrjú börn. Tvö þeirra komust á legg og í dag eru nærri 900 afkomendur þeirra á lífi.

Hans Jónatan lést árið 1827.

Erfðarannsókn

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 2018 tókst vísindamönnum að þræða saman erfðamengi Hans Jónatans, eingöngu með sýnum úr afkomendum hans en ekki úr líkamsleifum hans. Þetta var í fyrsta skipti sem tekist hafði að endurskapa erfðamengi manneskju án þess að notast við sjálfar líkamsleifarnar. Í rannsókninni voru borin kennsl á 788 afkomendur Hans Jónatans og erfðasýni tekið úr 182 ættingjum hans. Það auðveldaði rannsóknina hve lítið er um fólk af afrísku ætterni á Íslandi, hve einsleitt íslenskt erfðaefni er og ættarskráningar ítarlegar. Sýnin voru greind á móti þekktum ummerkjum um afrískt erfðaefni og tókst þannig að endurskapa 38% af erfðaefni móður hans og þar með 19% af erfðaefni Hans Jónatans sjálfs. Með rannsókninni kom í ljós að forfeður móður hans voru frá svæði sem spannar nú Nígeríu, Benín og Kamerún.[5]

Þó að upp hafi komið sú saga að Davíð Oddsson væri afkomandi Hans[6] eru ekki til vísbendingar sem benda til þess.[7][8]

Árið 2014 kom út ævisaga Hans Jónatans eftir Gísla Pálsson undir titlinum Maðurinn sem stal sjálfum sér.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Black on White, bls. 41–44.
  2. Jagadeesan, Anuradha. „Project 11: Computational reconstruction of Hans Jonatan's genome'. Afrit af upprunalegu geymt þann 21 apríl 2014. Sótt 10. maí 2014.
  3. 3,0 3,1 Gísli Pálsson (7. mars 2009). „Hans Jónatan: karabískur þræll gerist íslenskur bóndi“. Morginblaðið/Lesbók. Sótt 31. mars 2014.
  4. Black on White, bls. 45–47.
  5. Anuradha Jagadeesan, 'Reconstructing an African Haploid Genome from the 18th Century', Nature Genetics, 50(2) (2018), 199–205 doi:10.1038/s41588-017-0031-6.
  6. „Davíð Oddsson, 'Kominn af dökkum þræl'. Morgunblaðið. 9. janúar 1994. Sótt 31. mars 2019.
  7. „Davíð Oddsson sagður afkomandi „dularfulla kynblendingsins" Hans Jónatans“. DV. 17. janúar 2019. Sótt 31. mars 2019.
  8. „Davíð Oddsson og dularfulli kynblendingurinn“. DV. 29. janúar 1994. Sótt 31. mars 2019.