Fara í innihald

Handverksbjór

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Örbrugghúsið Bergenhus í Bergen, Noregi.

Handverksbjór er bjór sem framleiddur er af handverksbrugghúsi með litla framleiðslugetu miðað við stærri bruggverksmiðjur og oft í eigu lítilla sjálfstæðra aðila. Handverksbrugghús eru þannig minni en staðbundnar bruggverksmiðjur eins og Albani eða Starobrno, og miklu minni en alþjóðlegir bjórrisar á borð við Heineken eða Carlsberg. Slík brugghús eru oft með sveigjanlegri og fjölbreyttari framleiðslu en stærri framleiðendur. Undirtegundir handverksbrugghúsa eru til dæmis dvergbrugghús, flökkubrugghús, bændabrugghús og bruggkrár.

Fyrstu örbrugghúsin urðu til í Bretlandi og Bandaríkjunum á 8. áratug 20. aldar þegar tekið var að slaka á banni við heimabruggun. Sumir heimabruggarar þróuðu áhugamálið þannig að þeir stofnuðu fyrirtæki sem framleiddi fyrir sölu á heimamarkaði. Þeir náðu að leggja undir sig hluta markaðarins þar sem framleiðsla stærstu verksmiðjanna var orðin mjög einsleit og stöðluð. Á sama tíma lögðu þær undir sig æ stærri hluta markaðarins með sameiningum og misstu um leið tengslin við staðbundna markaði. Litlir bjórframleiðendur höfðu áður lengi lifað góðu lífi á meginlandi Evrópu, þótt þeir skilgreindu sig ekki sem örbrugghús. Hugmyndin um „handverksbjór“ og „handverksbrugghús“ þróaðist sem víðtækara yfirheiti til að ná utan um bæði stærri smáframleiðendur með öflug alþjóðleg dreifikerfi og litla framleiðendur sem eiga sér miklu lengri sögu en örbrugghúsin.

Skilgreiningar

[breyta | breyta frumkóða]
Humlar skammtaðir í sambruggun tveggja örbrugghúsa (Allagash og Oxbow) í Maine.

Örbrugghús

[breyta | breyta frumkóða]

Örbrugghús er hugtak sem var fyrst tekið að nota yfir smáframleiðendur í Bretlandi og Bandaríkjunum á 9. áratug 20. aldar.[1] Upphaflega vísaði það aðeins til smæðar framleiðandans, en fékk síðar á sig þá merkingu að brugghúsið væri með fjölbreyttari og sveigjanlegri framleiðslu en hefðbundin brugghús. Það hefur verið skilgreint þannig að það eigi við brugghús sem framleiða minna en 1.800.000 lítra (15.000 tunnur) á ári.[2] Örbrugghús selja megnið af sinni framleiðslu í heildsölu, ýmist sjálf eða í gegnum stærri heildsala, en selja oft hluta framleiðslunnar beint til viðskiptavina á staðnum. Ólíkt stærri bruggverksmiðjum geta örbrugghús verið staðsett í eða nálægt íbúðahverfum. Sum örbrugghús reka bruggstofu þar sem hægt er að setjast niður og smakka framleiðsluna af krana. Meðal fyrstu brugghúsanna sem voru kölluð örbrugghús voru Traquair og Selby Brewery í Bretlandi og New Albion í Bandaríkjunum.

Dvergbrugghús

[breyta | breyta frumkóða]

Dvergbrugghús eða nanóbrugghús er ölgerð sem er með enn minni framleiðslugetu og einfaldari búnað en örbrugghús og miðast oft við um 250.000 lítra framleiðslu eða minna á ári og um 350 lítra í einu. Mörg örbrugghús hefja starfsemi sem dvergbrugghús. Píkóbrugghús eru enn minni brugghús sem framleiða innan við 60.000 lítra á ári (500 tunnur). Þetta er mun meira en heimabrugg sem oft er takmarkað í lögum við magn á borð við 750 lítra (200 gallon) á ári. Þessar skilgreiningar eru þó töluvert á reiki og misjafnt eftir löndum og samhengi hvaða hugtök eru notuð.[3][4] Nánast öll íslensk handverksbrugghús væru skilgreind sem nanóbrugghús eða píkóbrugghús í bandarísku samhengi, en þessi hugtök eru ekki almennt notuð á Íslandi. Dæmi um dvergbrugghús eru CoStar Brewing og Hoi Polloi í Bandaríkjunum, og Spybrew í Danmörku.

Bændabrugghús

[breyta | breyta frumkóða]

Sum staðar í Evrópu er löng hefð fyrir framleiðslu öls á sveitabæjum, bæði til að útvega vinnufólki svalardrykk og eins til að selja ferðafólki. Í sumum tilvikum nota slík brugghús við sín eigin afbrigði af geri sem er varðveitt kynslóð fram af kynslóð, og sum staðar er byggið sem er notað í bruggunina heimaræktað. „Sveitabjór“ er þannig vel þekkt hugtak víða í Evrópu og vísar til aldagamalla bruggunaraðferða og hefða. Þetta hugtak hefur lengi verið notað af stærri brugghúsum til að markaðssetja ýmsar tegundir af staðbundnum og hefðbundnum bjór, þótt hann sé ekki framleiddur á sveitabæjum. Dæmi um það eru ýmsar tegundir af maltöli og hvítöl á Norðurlöndunum, sahti í Finnlandi og Bière de Garde í Frakklandi. Sum staðar eru sérstakar ívilnanir fyrir bjórframleiðslu á sveitabæjum þar sem sett eru skilyrði um að hluti hráefnanna sé ræktaður á bænum sjálfum. Nokkur brugghús á Íslandi eru eða hafa verið starfrækt á sveitabæjum, en þá fremur til að hagnýta aflögð útihús. Dæmi um það eru Gæðingur Öl, Ölvisholt og Steðji brugghús.

Flökkubrugghús og leigubrugghús

[breyta | breyta frumkóða]

Flökkubrugghús (enska: gipsy/phantom/cuckoo brewery) er brugghús sem fær inni hjá bruggverksmiðju með framleiðslu sína. Flökkubrugghúsið er þá ekki með aðstöðu fyrir magnframleiðslu, en getur verið með lítil bruggtæki fyrir vöruþróun. Það semur svo við annað brugghús um afnot af tækjum þess gegn gjaldi til að framleiða fyrir almenna sölu. Afbrigði af þessu fyrirkomulagi er leigubrugghús (enska: contract brewery), það er bruggverksmiðja sem framleiðir lítið sem ekkert undir eigin merkjum, en leigir verksmiðjuna út til annarra framleiðenda eða einstaklinga. Brugghús sem eru að stíga sín fyrstu skref á markaði byrja oft sem flökkubrugghús, og sum halda því áfram um langt skeið. Dæmi um flökkubrugghús eru danska brugghúsið To Øl og íslenska brugghúsið Lady Brewery. Danska brugghúsið Mikkeller hóf starfsemi sem flökkubrugghús. Einstök Beer Company hóf líka göngu sína árið 2011 sem flökkubrugghús sem notaðist við verksmiðju CCEP (þá Vífilfell) á Akureyri, en árið 2019 keypti CCEP vörumerkið fyrir dreifingu á Íslandi.[5]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „A Brief History Of Microbreweries In South Carolina“. Lowcountry Style & Living (bandarísk enska). Sótt 29. júní 2023.
  2. „Welcome to the Brewers Association“. Brewersassociation.org. Afrit af uppruna á 15. mars 2012. Sótt 16. mars 2012.
  3. Bree. „What is Micro Brewery? The Different Levels of the Beer Brewing Business“. Brewers' Union.
  4. „Craft, Micro, Nano, Pico“. North Williston Brewing Co.
  5. „CCEP kaupir vörumerkið Einstök á Íslandi“. Viðskiptablaðið. 27. ágúst 2019.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.