Hafnarfjarðarbíó

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Hafnarfjarðarbíó var kvikmyndahús í Hafnarfirði sem stofnað var árið 1914. Um þær mundir voru aðeins tvö kvikmyndahús starfrækt í landinu, Gamla bíó og Nýja bíó.

Árni Þorsteinsson hóf rekstur Hafnarfjarðarbíós á Kirkjuvegi í Hafnarfirði, en í daglegu tali gekk það undir nafninu Árnabíó í munni Hafnfirðinga. Reksturinn var löngum þungur, enda bíóferðir ekki á hvers manns færi þegar hart var í ári. Með komu breska hernámsliðsins og síðar Bandaríkjamanna í seinni heimsstyrjöldinni batnaði hagur kvikmyndahússins stórlega, þar sem hermenn fylltu það flest kvöld og landsmenn höfðu meira á milli handanna. Réðst Árni því í byggingu nýs kvikmyndahúss, við Strandgötu. Lauk framkvæmdum síðla árs 1943 og sýningar hófust. Árið eftir hóf bæjarsjóður Hafnarfjarðar rekstur annars kvikmyndahúss, Bæjarbíós. Samkeppnin var því hörð í litlum bæ með tvö kvikmyndahús. Níels Árnason tók við rekstri kvikmyndahússins að föður sínum gengnum.

Hart var barist um hylli bíógesta á höfuðborgarsvæðinu og kappkostuðu kvikmyndahúsin að næla sér í myndir sem höfðuðu til almennings. Hafnarfjarðarbíó og raunar Bæjarbíó einnig fengu fljótt orðspor fyrir að bjóða upp á frumlegt myndaval, meðal annars með norrænum myndum. Má þar nefna geysivinsælar danskar gamanmyndir með leikurum á borð við Dirch Passer, en einnig alvarlegri myndir, s.s. eftir sænska leikstjórann Ingmar Bergman.

Hafnarfjarðarbíó hætti rekstri árið 1988 og voru umsvif þess þá orðin afar lítil. Fyrst um sinn var rekinn skemmtistaður í húsnæðinu en það síðar rifið. Hugmyndir um að Kvikmyndasafn Íslands fengi aðsetur í húsinu náðu ekki fram að ganga, þar sem þáverandi yfirmenn safnsins lögðust gegn hugmyndum um flutning þess frá Reykjavík.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]