Húskakkalakki

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Húskakkalakki

Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríkið (Animalia)
Fylking: Liðdýr (Arthropoda)
Flokkur: Skordýr (Insecta)
Ættbálkur: Kakkalakkar (Blattodea)
Ætt: Kakkalakkaætt (Blattellidae)
Ættkvísl: Blattella
Tegund:
Blattella germanica

Tvínefni
Blattella germanica
Linnaeus, 1767

Húskakkalakki (fræðiheiti: Blattella germanica) er skordýr í kakkalakkaætt oft kallaður þýski kakkalakkinn.

Útbreiðsla[breyta | breyta frumkóða]

Útbreiddur um heim allan en talinn upprunninn í Mið-Afríku, á svæðinu kringum vötnin stóru, Eþíópíu og Súdan.

Ísland[breyta | breyta frumkóða]

Fundinn á nokkrum stöðum á landinu, utan höfuðborgarsvæðis á Keflavíkurflugvelli, Þingeyri, Siglufirði, Húsavík og í Aðaldal, Vopnafirði og Neskaupstað.

Lífshættir[breyta | breyta frumkóða]

Húskakkalakki lifir innanhúss og er afar illa þokkaður í híbýlum. Hann leggur sér til munns og skaðar flest það sem í boði er og honum fylgir auk þess mikill sóðaskapur. Hvers kyns matvörur eru í hættu, einnig leður, lím, veggfóður og textílvörur svo eitthvað sé nefnt. Húskakkalakkar safnast oft margir saman fyrir tilstilli lyktarefna sem þeir gefa frá sér. Þeir makast nokkrum dögum eftir að síðasta gyðluhamnum er kastað. Egghulstur myndast 2 til 4 dögum síðar og í því eru 30–40 egg, jafnvel fleiri, og stendur það áberandi aftur af kvendýrinu. Kerlan ber það með sér að meðaltali um tíu daga og sleppir því daginn áður en eggin klekjast. Stundum klekjast þau þó áður en hulstrinu er sleppt. Eftir að egghulstur losnar líða 22 dagar þar til það næsta myndast. Gyðlan hefur hamskipti 6 til 7 sinnum í uppvextinum. Það er afar breytilegt hvað það tekur tegundina langan tíma að þroskast frá eggi til fullþroska dýrs, við góðan stofuhita 54–215 daga eða 103 daga að meðaltali. Algengt er að 3 til 4 kynslóðir þroskist árlega og kvendýrin framleiði 4 til 5 (eða allt að 8) egghulstur á æviskeiði sínu. Af þessu má sjá að fjölgun getur orðið gríðarleg á einu ári.

Almennt[breyta | breyta frumkóða]

Húskakkalakki var þekktur hér sem slæðingur í Reykjavík, jafnvel talinn með bólfestu strax í upphafi 20. aldar og hafði þá einnig fundist á Vestfjörðum og Norðausturlandi. Þegar leið á öldina varð hans reglulega vart og í nokkrum tilvikum hafði hann með vissu sest að og fjölgað sér í gömlum híbýlum. Lítill vafi leikur á varanlegri fótfestu.

Húskakkalakki er af minni gerð kakkalakka en annars dæmigerður, vængjaður kakkalakki að sköpulagi, flatvaxinn gulbrúnn, með tvö dökk belti aftur eftir hálsskildi. Leðurkenndir yfirvængir með grófu æðamynstri og tiltölulega gegnsæir. Ungviði einungis með litla vængvísa. Fálmarar eru langir og mjóir, lengri en bolurinn, fætur alsettir sterkum göddum. Stutt liðskipt halaskott vita út á við. Húskakkalakkar eru varir um sig og fljótir að tvístrast ef þeir styggjast.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

Wikilífverur eru með efni sem tengist
  • Åkerlund, M. 1991. Ängrar – finns dom ...? Om skadeinsekter i museer och magasin. Naturhistoriska riksmuseet og Svenska museiföringen, Stokkhólmi. 207 bls.
  • Bjarni Sæmundsson 1931. Nýjungar úr dýraríki Íslands. Skýrsla um Hið ísl. náttúrufræðisfélag 1929–30: 32–39.
  • Geir Gígja 1934. Kakalakar (Blattoidea). Náttúrufræðingurinn 4: 75–80.
  • Lindroth, C.H. 1931. Die Insektenfauna Islands und ihre Probleme. Zool. Bidr. 13: 105–589.
  • Tuxen, S.L. 1938. Orthoptera and Dermaptera. Zoology of Iceland III, Part 38. Munksgaard, Kaupmannahöfn. 5 bls.