Kajak
Kajak (inúktitút: qajaq) er léttur lokaður bátur með opi að ofan fyrir ræðara sem er oftast einn. Kajak er róið með einni ár með blöð á báðum endum.
Hefðbundnir kajakar eru lokaðir að ofan með hringlaga opi fyrir ræðarann sem situr uppréttur flötum beinum í bátnum. Opin geta verið eitt eða fleiri. Stundum er kajasvunta notuð til að loka opinu og koma þannig í veg fyrir að vatn komist inn í bátinn. Kajakar eru annars mjög fjölbreyttir að gerð, allt frá mjóum sprettkajökum, stuttum straumkajökum, löngum sjókajökum og breiðum opnum sitjandi kajökum.
Í dag eru flestir kajakar gerðir úr hitadeigu plasti eða trefjaplasti. Hefðbundnir kajakar eru úr léttri trégrind sem er klædd með selskinni. Í dag eru slíkir kajakar oftast klæddir með ofnum dúk sem er þéttur með kvoðu úr náttúrulegum efnum eða gerviefnum.
Frá fornu fari hafa kajakræðarar notast við ýmis konar aukabúnað til að auka öryggi og auðvelda sér róðurinn. Dæmi um slíkt eru lítil blindsegl fest framan á kajakinn. Á seinni árum hafa komið kajakar með fótstigi eða rafmagnsmótor til að knýja þá áfram,
Grænlenskir kajakar
[breyta | breyta frumkóða]Húðkeipur er orð sem er notað um grænlenska kajakinn og er að mestu haft um báta karlmanna á Grænlandi.[1] Húðskútan (umiak) (líka stundum nefnd „konubátur“ eða „kvennabátur“ á íslensku) er stærri en húðkeipurinn og er selskinn þanið á öllu opnari trégrind. Húðkeipur er þó einnig haft um báta skrælingja á Vínlandi í Eiríks sögu rauða og stundum um kajaka almennt.
Húðskútan var hér áður fyrr mikið notuð til að bera vörur og til flutninga á veiði. Hún er gerð úr skinni og flýtur vel á öldunum. Í fylgd með hverri húðskútu voru oft veiðimenn á húðkeipum. „Húðkeiparnir voru sem tundurbátar, kvennabáturinn hið mikla orustuskip“, þannig lýsir Peter Freuchen þessum bátum.[2] Veiðimenn eru fljótir í förum á húðkeipunum og af þeim er auðvelt að skutla seli ef færi gefst. Komi mikil kvika, er húðkeipunum róið á vindborða við húðskúturnar og þær notaðar sem bárufleygar.
Í Eiríks sögu rauða er þessi lýsing á skrælingjum á húðkeipum:
Og einn morgunn snemma er þeir lituðust um sáu þeir níu húðkeipa og var veift trjánum af skipunum og lét því líkast í sem í hálmþústum og fer sólarsinnis. |
Í seinna Íþróttabindi Alfræði Menningarsjóðs er húðkeipur haft almennt um kajak: „Kænuróðraíþróttir (e. canoeing; þ. Kanusport) er heildarheiti á róðri á þremur mismunandi kænutegundum: húðkeip (kajak), kanadískri eikju (canadian) og sambrotseikju“.[3]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Húðkeipur“. Málið.is. Sótt 19.1.2025.
- ↑ Peter Freuchen (1957). Æskuár mín á Grænlandi. Helgafell. bls. 22.
- ↑ Ingimar Jónsson (1976). Íþróttir. Alfræði Menningarsjóðs. 2. bindi. bls. 34.