Hávamál
Hávamál er kvæði úr eddukvæðum. Hávamál merkir mál hins háa, en hinn hái er Óðinn og er kvæðið lífsspeki hans, og inniheldur hvortveggja hvunndagslegar ráðleggingar og háspekilegt efni. Eina forna eintakið af Hávamálum er að finna í Konungsbók Eddukvæða. Handritið er talið vera frá seinni hluta 13. aldar en ekki vita menn neitt um geymd þess fyrr en það kom í eigu Brynjólfs biskups Sveinssonar í Skálholti 1643, og gaf hann því heitið Sæmundaredda. Einsætt er af ýmsum ritvillum, að Konungsbók er ekki frumrit, heldur eftirrit eldra handrits, sem enginn veit nein deili á.
Kvæðið Hákonarmál (c. 960) eftir Eyvind skáldaspilli er elsti ritaði ívitnunarstaður kvæðisins, þ.e. elsta heimild um að þess sé getið.
Hávamál er safn fjölda kvæða, allt í allt 164 erindi, sem skiptast í 6 þætti. Bragarháttur Hávamála nefnist ljóðaháttur.
Hávamál skipa veglegan sess í trú Ásatrúarfólks.
Gestaþáttur
[breyta | breyta frumkóða]Fyrsti þáttur nefnist Gestaþáttur og er frá 1. til 79. erindi. Í honum er sagt hvernig maður á að haga sér þegar maður er gestur og mikil áhersla er lögð á mannasiði og siðferðisleg samskipti milli gestgjafa og gests. Fyrsta vísan sýnir eitt af þessum ráðum:
- Gáttir allar
- áður gangi fram
- um skoðast skyli,
- um skyggnast skyli,
- því að óvíst er að vita
- hvar óvinir
- sitja á fleti fyrir.
Vísa 76 er kannski hin þekktasta úr Gestaþætti:
- Deyr fé,
- deyja frændur,
- deyr sjálfur ið sama.
- En orðstír
- deyr aldregi
- hveim er sér góðan getur.
Loðfáfnismál
[breyta | breyta frumkóða]Næsti stóri hluti Hávamála fjallar um siðferði, siðfræði, um rétta hegðun og reglur um stjórnun. Talað er til Loðfáfnis og dregur þessi hluti nafn sitt af því: Loðfáfnismál, en Loðfáfnir er staðgengill þeirra sem lesa eða hlusta.
Rúnatal
[breyta | breyta frumkóða]Óðinn segir hér frá sjálfsvígi sínu í vísu 138 sem kallast Rúnatal:
- Veit eg að eg hékk
- vindgameiði á
- nætur allar níu,
- geiri undaður
- og gefinn Óðni,
- sjálfur sjálfum mér,
- á þeim meiði
- er manngi veit
- hvers af rótum renn.
Ljóðatal
[breyta | breyta frumkóða]Ljóðatal, síðasti hluti Hávamála, er mjög háreist í háspeki og fjallar um útbreiðslu menntunar og dulspeki Óðins. Í eðli sínu er það listi og lykill að röð af rúnagaldri. Það eru tengsl milli Ljóðatals og Sigrdrífumála, þar sem valkyrjan Sigrdrífa segir frá þeim rúnum, sem hún hefur vald á. Í kaflanum telur Óðinn upp fimbulljóðin níu sem hann hefur lært.
- Það kann eg ið sétta:
- Ef mig særir þegn
- á rótum rás viðar,
- og þann hal
- er mig heifta kveður,
- þann eta mein heldur en mig.
Að senda rót með rúnagöldrum á er vel þekkt í norrænum ritum. Til dæmis var það orsök dauða Grettis sterka Ásmundarsonar.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Hávamál í útgáfu Guðna Jónssonar á www.heimskringla.no
- Hávamál; af heimasíðu Snerpu
- Handan við Hávamál; 1. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1989
- Eru hugmyndir Hávamála norrænar eða suðrænar?; 2. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1989
- Var höfundurinn pílagrímur?; 3. grein í Lesbók Morgunblaðsins 1989
- Hugleiðingar um Hávamál; grein í Lesbók Morgunblaðsins 1955