Guðröður Danakonungur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Konungur Danmerkur
Sigfreðsætt
Guðröður Danakonungur
Guðröður
Ríkisár 804-810
FæddurSeint á 8. öld
 Danmörk
Dáinn810
 Danmörk
Konungsfjölskyldan
Faðir óþekktur, mögulega Gormur
Móðir óþekkt

Guðröður (danska: Godfred eða Gøtrik; latína: Godofridus) var hugsanlega Danakonungur frá um það bil 804 til 810. Hann er sá fyrsti sem til eru samtímaheimildir um. Hann barðist gegn Karlungaveldi í tíma Karlamagnúsar, en var myrtur af samlanda sínum áður en stór átök áttu sér stað. Engar áreiðanlegar frásagnir eru um Guðröð í norrænum heimildum. Saxi málspaki nefnir hann sem „Gotricus“ eða „Gøtrik“ í Gesta Danorum, en saga hans um erfingja Guðröðar samræmist ekki frankverskum samtímaheimildum. Faðir hans er óþekktur, en hann var sennilega skyldur Sigfreð sem var sagnkonungur Dana á undan honum.[1] Guðröður var föðurbróðir Hemmings Danakonungs (ríkti 810 til 812) sem samdi frið við Karlamagnús, og faðir Háreks fyrsta Danakonungs (ríkti 813 til 854).

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Guðröður er sagður hafa átt að minnsta kosti fimm syni og auk þess fimm systkinabörn. Nokkrir þessara sona urðu konungar eða meðstjórnendur Dana á fyrri hluta 9. aldar. Í heimildum er oft minnst á „Guðröðarsyni“ án vitneskju um nöfn þeirra fyrir utan Hárek fyrsta. Ýmsir fræðimenn hafa reynt að finna sonum hans stað i norrænum, frankverskum og írskum heimildum, til dæmis Ólafur, Ragnar og Ketill.[2] Miklar efasemdir eru um gildi þessara tilrauna.[3] Hemmingur er sagður vera bróðursonur Guðröðar í annálum frankversku konungsfjölskyldunnar. Rögnvaldur, Hákon, Angantýr og Sigfreður eru sagðir vera systkinasynir Guðröðar. Adam frá Brimum taldi Hemming og Guðröð vera patruelis, eða bræðrabörn.[4] Hárekur 1. lifði systkin sín og frændur og varð einvaldur í Danmörku um árið 828.

Önnur konungsætt keppti við afkomendur Guðröðar á þessum tíma um forystu yfir Dönum. Haraldur klak Hálfdanarson, sem réð í Jótlandi á árunum 812 til 813 og 819 til 827, og afkomendur hans byggðu kröfu sína á því að þeir væru afkomendur Haralds konungs. Haraldur þessi kann að hafa verið forveri, meðstjórnandi eða skammlífur arftaki Sigfreðar. Allt þetta kemur aðeins fram í frankverskum heimildum.[heimild vantar]

Samskipti við Frankaveldi[breyta | breyta frumkóða]

Við lok 8. aldar stóðu Danir og saxneskir nágrannar þeirra frammi fyrir átökum við Franka undir forystu Karlamagnúsar. Eftir orrustuna við Bornhøved (eða við Schwentine) árið 798 voru Saxar sigraðir af Abódrítum. Abódrítar voru Vestur-Slavar og bandamenn Karlamagnúsar. Þeir fengu hluta af landi Saxa í Holtsetalandi árið 804. Sama ár komst herlið Franka alla leið að Egðu sem markaði landamæri Danmerkur á þeim tíma. Guðröður lofaði að hitta Karlamagnús í eigin persónu til að hefja friðarviðræður. Guðröður kom til Heiðabæjar í Slésvík með flota og allt riddaralið Dana. Fylkismenn konungs réðu honum gegn því að hitta Frankakeisara svo hann mætti ekki til fundarins. Karlamagnús stofnaði herbúðir við Elbu og sendi erindi til Guðröðar þar sem hann bað Danakonung um að framselja uppreisnarmenn sem höfðu leitað skjóls í Danmörku. Úr því varð ekki og keisarinn sneri aftur til Aachen í september sama ár.[5]

Árið 807 sór danskur höfðingi, Hálfdan að nafni, Karlamagnúsi hollustueið. Talið er að hann hafi verið faðir Haralds klaks og bróðir Haralds, fyrrverandi Danakonungs. Líklega neitaði Hálfdan að sýna Guðröði hollustu vegna ættartengsla.[6] Hálfdan varð mögulega jarl í nokkrum kaupstöðum sunnan Egðu í Norður-Fríslandi, svæði sem síðar varð bækistöð afkomenda hans.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Faðerni Guðröðar kemur hvergi fram í miðaldarheimildum nema í Gesta Danorum eftir Saxa málspaka. Þar fullyrðir Saxi að Guðröður hafi verið sonur Gorms konungs, sem virðist vera eftirlíking af Gormi gamla. Henrik Schück kenndi Guðröð við Guðfreð konung, sem nefndur var í írskri ættartölu úr 11. öld (Þrjú brot, á ensku). Guðfreður var sjálfur sonur Guðfreðs, mögulega bróður Sigfreðs konungs að sögn Schücks (Henrik Schück (1895), "De senaste undersökningarna rörande ynglingasagan"). Gildi þessarar ættartölu er vafasamt.
  2. P.A. Munch (1941), Det norske Folks Historie Oslo: Instituttet for Historisk Forskning, Bd. II, p. 33 ; Henrik Schück (1895), "De senaste undersökningarna rörande ynglingasagan", Historisk Tidskrift 15, p. 76 ; Erik Kroman (1976), Det danske rige i den aeldre Vikingetid. Copenhagen: Rosenkilde og Bagger, p. 131, 156-7.
  3. The standard work on European princely genealogies, Detlev Schwennicke (1978), Europäische Stammtafeln: Stammtafeln zur Geschichte der Europäischen Staaten, Neue Folge, Marburg: J. A. Stargardt, Table 104, mentions the sons Olaf, Erik (Horik), Gudfred, Rolf and Ragnar. However, the table appears to depend on advanced guesses.
  4. Adamus, Gesta Hammaburgensis ecclesiae pontificum „Geymd eintak“. Afritað af uppruna á 7. febrúar 2005. Sótt 3. mars 2024., Liber I, Capitulum 16; Adam av Bremen (1984), Historien om Hamburgerstiftet och dess biskopar. Stockholm: Proprius, p. 28 (Book I, Chapter 14).
  5. Einhards Jahrbücher, Anno 804 , p. 104; Danernes Sagnhistorie Geymt 11 febrúar 2021 í Wayback Machine
  6. Henrik Schück (1895), "De senaste undersökningarna rörande ynglingasagan" , note 81.
  Þessi stjórnmálagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.