Guðmundur E. Sigvaldason
Guðmundur Ernir Sigvaldason (f. 24 júlí 1932, d. 15. desember 2004) var íslenskur jarðfræðingur. Foreldrar hans voru Birgitta Guðmundsdóttir verkakona og Sigvaldi Jónasson bóndi frá Björk í Grímsnesi.
Menntun
[breyta | breyta frumkóða]Stúdentspróf frá MR 1952. Doktorspróf (Dr. rer. nat.) í bergfræði og jarðfræði frá Georg-August Universität í Göttingen 1959.
Starfsferill
[breyta | breyta frumkóða]Starfaði sem sérfræðingur við Iðnaðardeild Atvinnudeildar HÍ 1961-1967 við rannsóknir á jarðefnafræði jarðhitasvæða. Varð síðan sérfræðingur við Raunvísindastofnun HÍ og kenndi við jarðfræðiskor 1968-1972. Hann vann tvívegis að jarðhitaverkefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna í Rómönsku Ameríku, fyrst í El Salvador 1967-1968 og síðan í Níkaragva 1972-1973. Guðmundur var forstöðumaður Norrænu Eldfjallastöðvarinnar frá stofnun hennar árið 1973 og til 1998.
Guðmundur sat í úthlutunarnefnd Vísindasjóðs 1968-1982 og varð formaður nefndarinnar 1999-2001. Hann var fulltrúi Íslands í vísindasiðanefnd NATO 1970-1982, formaður Alþjóðasambands eldfjallastöðva 1981-1991 og sat í stjórn European Laboratory Volcanos Project 1986-1996. Guðmundur var í stjórnum og starfaði sem aðalráðgjafi í fjölmörgum alþjóðlegum vísinda- og fræðiverkefnum, meðal annars á vegum Evrópubandalagsins og einstakra Evrópuríkja. Jafnhliða þessu stundaði Guðmundur jarðfræðirannsóknir bæði á Íslandi og erlendis. Aðalviðfangsefni hans á því sviði var Askja og Ódáðahraun.
Guðmundur hefur ritað fjöldann allan af fræðigreinum í blöð og fagtímarit, gert sjónvarpsþætti fyrir almenning og hlotið viðurkenningar fyrir vísindastörf sín. Hann varð heiðursdoktor við Háskóla Íslands árið 2000.