Guðmundur E. Sigvaldason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Guðmundur Ernir Sigvaldason (f. 24 júlí 1932, d. 15. desember 2004) var íslenskur jarðfræðingur. Foreldrar hans voru Birgitta Guðmundsdóttir verkakona og Sigvaldi Jónasson bóndi frá Björk í Grímsnesi.

Menntun[breyta | breyta frumkóða]

Stúdentspróf frá MR 1952. Doktorspróf (Dr. rer. nat.) í bergfræði og jarðfræði frá Georg-August Universität í Göttingen 1959.

Starfsferill[breyta | breyta frumkóða]

Starfaði sem sérfræðingur við Iðnaðardeild Atvinnudeildar HÍ 1961-1967 við rannsóknir á jarðefnafræði jarðhitasvæða. Varð síðan sérfræðingur við Raunvísindastofnun HÍ og kenndi við jarðfræðiskor 1968-1972. Hann vann tvívegis að jarðhitaverkefnum á vegum Sameinuðu þjóðanna í Rómönsku Ameríku, fyrst í El Salvador 1967-1968 og síðan í Níkaragva 1972-1973. Guðmundur var forstöðumaður Norrænu Eldfjallastöðvarinnar frá stofnun hennar árið 1973 og til 1998.

Guðmundur sat í úthlutunarnefnd Vísindasjóðs 1968-1982 og varð formaður nefndarinnar 1999-2001. Hann var fulltrúi Íslands í vísindasiðanefnd NATO 1970-1982, formaður Alþjóðasambands eldfjallastöðva 1981-1991 og sat í stjórn European Laboratory Volcanos Project 1986-1996. Guðmundur var í stjórnum og starfaði sem aðalráðgjafi í fjölmörgum alþjóðlegum vísinda- og fræðiverkefnum, meðal annars á vegum Evrópubandalagsins og einstakra Evrópuríkja. Jafnhliða þessu stundaði Guðmundur jarðfræðirannsóknir bæði á Íslandi og erlendis. Aðalviðfangsefni hans á því sviði var Askja og Ódáðahraun.

Guðmundur hefur ritað fjöldann allan af fræðigreinum í blöð og fagtímarit, gert sjónvarpsþætti fyrir almenning og hlotið viðurkenningar fyrir vísindastörf sín. Hann varð heiðursdoktor við Háskóla Íslands árið 2000.