Fara í innihald

Guðmundur Bergmann Steinsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Guðmundur Bergmann Steinsson (16989. maí 1723) eða Guðmundur Steinsson Bergmann var skólameistari í Hólaskóla, sonur Steins Jónssonar biskups á Hólum og konu hans Valgerðar Jónsdóttur. Hann tók sér nafnið Bergmann eins og bræður hans og kenndu þeir sig við Setberg í Eyrarsveit, þar sem þeir ólust upp.

Guðmundur varð stúdent úr Hólaskóla og sigldi síðan til náms við Kaupmannahafnarháskóla. Hann kom heim árið 1720 og varð þá skólameistari á Hólum. Hann var vel lærður en drykkfelldur eins og Jón bróðir hans. Hann giftist Margréti Einarsdóttur, ekkju Benedikts Magnússonar Bech, sýslumanns á Sjávarborg, og var hún um 16 árum eldri en hann. Þau bjuggu á Sjávarborg en Guðmundur gegndi þó áfram skólameistarastarfinu.

Í maí 1723 átti Guðmundur erindi út í Sævarlandsvík að sækja bát og fóru þrír menn með honum, þar á meðal Sigfús bróðir hans, um átján ára og að því kominn að útskrifast úr Hólaskóla. Þeir komu við á Fagranesi á Reykjaströnd og voru þar við messu en sagt var að Guðmundi hefði legið svo á að komast heim í Sjávarborg að hann hefði rekið á eftir prestinum að flýta messunni. Presturinn, Þorkell Þorsteinsson, ákvað að fá far með þeim því hann átti erindi í Sjávarborgarsókn. Logn var og gott veður en þó hvolfdi bátnum og allir sem á honum voru drukknuðu. Hafði þá Steinn biskup misst alla syni sína voveiflega því sá elsti, Jón Bergmann, fyrirfór sér fáeinum árum áður.

  • „„Skólameistaratal á Hólum í Hjaltadal". Norðanfari, 31. janúar 1883“.
  • „„Eyvindur Jónsson duggusmiður". Blanda, 3. bindi, 1924-1927“.