Guðjón Ketilsson
Guðjón Ketilsson (f. 1956) er íslenskur myndlistarmaður. Guðjón hlaut Íslensku myndlistarverðlaunin 2020, svo og Menningarverðlaun DV árið 2000 og Verðlaun Listasafns Einars Jónssonar árið 2001.
Nám
[breyta | breyta frumkóða]Guðjón útskrifaðist frá Myndlista- og handíðaskóla Íslands 1978 og fór þá í framhaldsnám við Nova Scotia College of Art and Design í Kanada þaðan sem hann lauk námi 1980.
Myndlist
[breyta | breyta frumkóða]Guðjón vinnur að mestu að gerð teikninga og skúlptúra. Í verkum hans er mannslíkaminn í forgrunni, nærvera hans eða fjarvera. Hann hefur og unnið mikið með hversdagsleg tengsl okkar við líkamann, allt frá fötunum sem við klæðumst, hárgreiðslum og skófatnaði, sem breytist og aðlagast stærð, lögun, hitastigi og hreyfingum líkamans. Guðjón hefur talsvert unnið með einskonar framlengingu á líkamanum, svo sem með því að kanna verkfæri og sögu verkfæra sem vitna um aðlögunarhæfni mannsins að aðstæðum. Hugsun mannsins og bein líkamleg framlenging á henni í formi tals og tungumála, skrifa og teikningar er í auknum mæli viðfangsefni í myndlist Guðjóns. Hann kannar möguleika á því að skoða hinn skrifaða texta sem teikningu, texta sem mynd. Fundnir hlutir úr náttúrulegu efni sem maðurinn hefur mótað eftir þörfum sínum en hefur lagt til hliðar, fá gjarnan annað hlutverk, einskonar eftirlíf í skúlptúrum Guðjóns.
Ferill
[breyta | breyta frumkóða]Guðjón hefur haldið á þriðja tug einkasýninga og tekið þátt í fjölda samsýninga, heima og erlendis, meðal annars á öllum Norðurlöndunum, Hollandi, Spáni, Bandaríkjunum, Kína og Ástralíu. Verk eftir Guðjón eru í eigu allra helstu safna landsins og víða í opinberum söfnum og einkasöfnum erlendis. Meðal opinberra listasafna sem eiga verk eftir Guðjón er Metropolitan Art Museum í New York borg. Einnig hefur hann unnið á ýmsum alþjóðlegum vinnustofum og verið valinn í fjölda samkeppna um útilistaverk. Nokkur þeirra má sjá í Reykjavík og á Seyðisfirði.
Útgáfa
[breyta | breyta frumkóða]Bókaútgáfan Crymogea gaf út veglega bók um feril Guðjóns Ketilssonar 2010 að tilhlutan Listasjóðs Dungal Geymt 21 febrúar 2020 í Wayback Machine.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]