Fara í innihald

Grundarbardagi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Grundarbardagi var orrusta sem háð var á Grund í Eyjafirði að morgni 8. júlí 1362. Þar féllu þeir Smiður Andrésson hirðstjóri, Jón Guttormsson skráveifa og fleiri fyrir flokki Eyfirðinga.

Smiður hirðstjóri reið norður í land eftir Alþingi með rúmlega þrjátíu manna flokk, þar á meðal báða lögmennina, Jón skráveifu og Orm Snorrason, og hugðist lækka rostann í Norðlendingum, sem höfðu átt í deilum við Jón skalla Eiríksson Hólabiskup og neitað að viðurkenna hann sem yfirboðara sinn. Smiður hafði áður aflað sér óvinsælda með harðri skattheimtu og Jón skráveifa var svo óvinsæll að þegar hann var hirðstjóri í Norðlendingafjórðungi höfðu Norðlendingar riðið á móti honum og hrakið hann úr fjórðungnum.

Flokkurinn kom á Grund og settist þar upp. Sagt er að húsfreyjan, Grundar-Helga, hafi búið þeim veislu og veitt vel svo að gestirnir hafi orðið mjög ölvaðir. Hún á líka að hafa sagt stúlkum þeim sem þjónuðu mönnunum til sængur að snúa við annarri skálminni á brókum þeirra svo þeim yrði tafsamt að klæða sig. En á meðan veislan stóð hafði hún látið sendimenn sína fara um sveitina og safna saman vopnfærum mönnum. Samtímaheimildir (annálar) segja þó að Eyfirðingar hafi safnast saman þegar þeir fréttu af ferðum Smiðs og förunauta hans og hitt þá fyrir á Grund. Ein yngri heimild segir að "fortogi" Eyfirðinga í bardaganum hafi verið Gunnar Pétursson, bróðir Helgu. Gunnar er þekktur úr skjölum. Hann mun þá hafa búið á Hólum í Eyjafirði, en síðar á Auðbrekku. Bróðir þeirra Helgu mun hafa verið Ólafur Pétursson hirðstjóri.

Bardaginn var harður og er sagður hafa staðið frá miðjum morgni (kl. 6) þar til eftir dagmál (kl. 9) og féllu alls þrettán eða fjórtán menn, sjö eða átta úr liði aðkomumanna en sex Eyfirðingar, og margir særðust. Smiður var vel vígur og er sagður hafa varist fimlega þótt drukkinn væri, stökk upp á skálabitana og hljóp á milli þeirra. Á endanum gat þó einhver komið lagi á háls hans og er sagt að höfuðið hafi lent í mjólkurtrogi húsfreyjunnar. Jón skráveifa er ýmist sagður hafa verið laminn til bana með járnreknum kylfum eða fundist fastur í kamarauganu, sem hann hafði reynt að skríða út um til að bjarga lífi sínu, og verið höggvinn. Ormur Snorrason komst í kirkju með nokkrum öðrum og þótti framganga hans ekki hetjuleg.

  • Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
  • "Auðbrekkubréf og Vatnsfjarðarerfðir" Saga, tímarit Sögufélags 1962.
  • Jón Trausti. „Veislan á Grund hjá snerpa.is“.