Fara í innihald

Bless Lenín!

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Good bye, Lenin)
Bless Lenín!
Good bye, Lenin!
LeikstjóriWolfgang Becker
HandritshöfundurWolfgang Becker
Bernd Lichtenberg
LeikararDaniel Brühl
Katrin Saß
Chulpan Khamatova
Maria Simon
Alexander Beyer
FrumsýningGermany 9 Febrúar 2003
Ísland 28 Júlí 2004
Lengd121 mín.
Tungumálþýska
AldurstakmarkGermany 6
Ísland L
Ráðstöfunarfé€4,800,000

Bless Lenín![1] (frumtitill: Good bye, Lenin!) er þýsk tragíkómedía frá árinu 2003. Kvikmyndin vann til verðlauna á kvikmyndahátíðum um allan heim. Hún var meðal annars valin besta myndin við veitingu Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna og hlaut meirihluta verðlauna á þýsku kvikmyndahátíðinni árið 2003. Hún var tilnefnd til BAFTA verðlaunanna í Bretlandi og Golden Globe verðlaunanna í Bandaríkjunum.

Söguþráður

[breyta | breyta frumkóða]

Myndin gerist í Austur-Berlín haustið 1989 og sumarið 1990. Christiane Kerner, móðir Alexanders Kerners, fær hjartaáfall og fellur í dauðadá skömmu fyrir fall Berlínarmúrsins. Hún vaknar á ný átta mánuðum síðar, en er mjög máttfarin og læknarnir ráðleggja börnum hennar tveimur að hlífa henni við öllu því sem gæti truflað hana eða valdið áhyggjum, til að koma í veg fyrir að hún fái annað hjartaáfall. Christiane hafði verið ötull talsmaður sósíalismans, og í ljósi þess hefur sonur hennar áhyggjur af því að það verði henni ofviða að heyra frá falli múrsins, sameiningu Þýskalands og öllum breytingunum sem því fylgdu. Hann leggur sig því allan fram við að búa móður sinni umhverfi þar sem hann getur blekkt hana til að trúa því að ekkert hafi breyst. Áður en yfir lýkur kemst móðirin þó að því að sonur hennar sé að blekkja hana, en til að særa hann ekki lætur hún hann ekki vita af því. Hún blekkir hann sem sagt til að trúa því að hann sé að blekkja hana.

Sagan leikur sér þannig með sannleika og blekkingu. Allar lygarnar eru þó vel meintar og til þess ætlaðar að vernda fjölskylduna, auðvelt er að sjá líkingu með hegðun fjölskyldunnar og ástandinu sem var í Austur-Þýskalandi sjálfu, en myndin beinir einnig sjónum að því hvernig staðið var að sameiningu ríkisins með hagsmuni Vestur-Þjóðverja að leiðarljósi, hvernig fyrsta reynsla Austur-Þjóðverja var af vestrinu og hvernig Vestur-Þjóðverjar og kannski fyrst og fremst vestur-þýsk stjórnvöld, litu niður á Austur-Þjóðverja sem hálfgert þriðja heims fólk og annars flokks. Myndin veltir einnig upp spurningum um þjóðerni, hvað það er sem sameinar fólk svo það geti kallað sig eina þjóð. Einnig er athyglinni beint að Austur-Þjóðverjunum sem sjá eftir veröldinni sem var á bak við járntjaldið, því sem kallað hefur verið ostalgía (Ost = þ. austur).

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Stjörnugjöf. Morgunblaðið