Glerverksmiðjan

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Glerverksmiðjan var verksmiðja við Elliðaárvog sem framleiddi gler. Verksmiðjan var reist af fyrirtækinu Glersteypan h.f. Vegna fjárhagsörðugleika stöðvaðist rekstur undir merkjum Glersteypunnar fljótlega en í mars 1956 tók fyrirtækið Glergerðin h.f. við rekstri verksmiðjunnar en það fyrirtæki var stofnað var að tilhlutan Framkvæmdabanka Íslands sem hafði lánað til verksmiðjubyggingarinnar. Glergerðin tók verksmiðjuna á leigu bókhaldslega séð, en starfsfólk og stjórnendur voru hinir sömu og áður. Sveinn S. Einarsson verkfræðingur var framkvæmdastjóri Glergerðarinnar og Ingvar Ingvarsson forstjóri. Verksmiðjan gat árið 1956 framleitt 12 tonn á dag af rúðugleri og þá unnu við framleiðsluna 65 menn og var unnið allan sólarhringinn.

Glerframleiðsla frá 1951 til 1957[breyta | breyta frumkóða]

Glersteypan, hlutafélag um að koma á fót glerverksmiðju var stofnað 19. júní 1951 að tilstuðlan bræðranna Ingvars S. Ingvarssonar og Gunnars Á. Ingvarssonar, sona Ingvar Einarssonar skipstjóra og voru gerðar tilraunir með íslensk jarðefni til framleiðslunnar. Fyrirtækið kom sér upp bræðsluofni og hóf starfsemi í hernámsbragga við Langholtsveg en sú verksmiðja eyðilagðist í bruna í maí árið 1953. Glersteypan h.f. byggði þá glerverksmiðju við Súðarvog. Fyrirtækið fékk til ráðgjafar belgískt fyrirtæki Pierre Rousseau Lodelinsalt og reisti á lóðina við Súðarvog 1400 fermetra járnklætt stálgrindarhús, sem flutt var inn frá Belgíu tilbúið til uppsetningar og svo aðlagað að þörfum verksmiðjunnar. Upp úr hluta byggingarinnar var reistur turn úr stálgrind. Undir hann var settur 6 metra hár steinsteyptur glerbræðsluofn. Verksmiðja undir merkjum Glersteypunnar tók til starfa árið 1955 og var fyrsta glerverksmiðjan sem sett var á fót á Íslandi. Verksmiðjan gekk illa, framleiðslan reyndist gölluð og þurfti að bræða upp hluta hennar og myndaðist fljótlega mikið glerfjall á verksmiðjulóðinni. Fyrirtækið Glersteypan var tekið til gjaldþrotaskipta í ársbyrjun 1957. Framkvæmdabanki Íslands tók við rekstrinum (Glersteypan hf) og rak um skeið verksmiðju til samsetningar á gleri.

Glerfjall og arsenik[breyta | breyta frumkóða]

Mjög stórt glerfjall var við verksmiðjuhúsið og var þar í mörg ár eftir að glerverksmiðjan hætti starfsemi. Glerhaugurinn var árið 1965 fluttur frá verksmiðjunni og settur undir flugbraut í Fossvogi. Mikið magn af arseniki í tunnum fannst árið 1969 sem talið er hafa verið geymt í eða við glerhauginn. [1]

Verksmiðjuhúsið verður ullarverksmiðja, vélsmiðja og sýningarsalur[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1962 keypti fyrirtækið Teppi hf húsið og reif innan úr því þannig að húsrýmið varð einn salur. Í húsnæðinu var svo rekin ullarverksmiðja til ársins 1977. Árið 1978 keypti Jósafat Hinriksson húsið og flutti þangað vélaverkstæði sitt J. Hinriksson hf. Það fyrirtæki byggði fleiri byggingar á lóðinni og framleiddi m.a. toghlera. Árið 1988 var innréttaður sýningarsalur í verksmiðjuhúsinu og þar opnuð sýning á safni sjóminja og smiðjumuna úr fórum Jósafats Hinrikssonar. Vélsmiðja hans var starfrækt í Súðarvogi til ársins 2000. Í október 2012 kom upp eldur í einu af húsunum á lóðinni Súðarvogur 4 og á árunum 202-2013 voru allar byggingar ár lóðinni rifnar.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Hefðu eins getað pantað tíu kjarnorkusprengjur, Tíminn, 180. Tölublað (15.08.1969), Blaðsíða 1