Glassúr

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Vínarbrauð með glassúr.

Glassúr eða sykurbráð er sæt þekja sem sett er á ýmsar kökur til bragðbætis og sem skreyting og jafnframt stundum til að koma í veg fyrir að yfirborð kökunnar þorni og harðni. Orðið er komið inn í íslensku úr dönsku en er upphaflega úr frönsku, glacé (ís).

Aðalefnið í glassúr er flórsykur, blandaður vatni, ávaxtasafa eða öðrum vökva og oft einnig litarefnum og bragðefnum, svo sem kakódufti, vanillu eða öðru, og hann er mun þynnri en smjörkrem og annað kökukrem. Ef glassúrinn á að vera harður, til dæmis ef honum er sprautað á kransaköku, er hann hrærður með eggjahvítum í stað vatns og oft blandaður örlitlu ediki.

Glassúr er settur á ýmsar kökur og smákökur, vínarbrauð, snúða, kleinuhringi og fleira. Hann er líka notaður til að skreyta piparkökur og þá gjarnan litaður með matarlit í nokkrum mismunandi litum. Þar sem aðalefnið í glassúr er sykur er hann mjög hitaeiningaríkur.

Tengill[breyta | breyta frumkóða]