Gjálpargosið
Útlit
(Endurbeint frá Gjálp)
Gjálpargosið var eldgos í Gjálp undir Vatnajökli og hófst að kvöldi 30. september 1996. Gjálpargosið var einstætt í sinni röð þar sem jarðvísindamönnum gafst í fyrsta sinn tækifæri á að fylgjast með átökum elds og íss og myndun móbergsfjalls inni í stórum jökli. Gosið stóð í 13 daga og þeim dögum bráðnuðu um 3 rúmkílómetrar íss. Á meðan myndaðist allt að 350 m hár og 6-7 km langur móbergshryggur inni í jöklinum. Volgt bræðsluvatn rann frá gosstöðvunum og safnaðist fyrir í Grímsvötnum þar til þau hlupu 4.-6. nóvember. Jökulhlaupið náði 45.000 m3/sek. þegar mest stóð á.
Eldstöðin heitir eftir Gjálp Geirröðardóttur sem olli vatnavöxtum miklum í ánni Vimur eins og greint er frá í Snorra-Eddu.