Fara í innihald

Gautavík

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gautavík er bær við norðanverðan Berufjörð og er í Múlaþingi.

Í Gautavík var verslunarstaður til forna og má enn sjá þar rústir, sem hafa verið friðlýstar frá 1964 og hafa dálítið verið rannsakaðar. Þar hefur til dæmis fundist töluvert af leirkerabrotum. Staðarins er getið í Íslendingasögum og bæði í Njálssögu og Fljótsdælasögu segir frá skipakomum þangað. Gautavík kemur oft við sögu sem verslunarstaður í gömlum annálum frá 14. og 15. öld og virðist þar hafa verið ein helsta verslunarhöfn Austurlands. Þýskir kaupmenn frá Brimum versluðu þar fram á síðari hluta 16. aldar. Verslunin fluttist fyrst yfir fjörðinn, fyrst til Fýluvogs (Fúluvíkur) og síðan yfir á Djúpavog.

Í Gautavík kom Þangbrandur prestur fyrst að landi, þegar Noregskonungur sendi hann til Íslands til að kristna landsmenn. Hann var þá hirðprestur Ólafs konungs Tryggvasonar. Í Kristnisögu er honum lýst sem ofstopamanni, ófærum til kristniboðs, og var hann sagður bera Biblíuna í annarri hendi og sverð í hinni.

Skriða féll á bæinn í Gautavík sumarið 1792 og hjónin þar fórust bæði.