Fara í innihald

Gísli Helgason

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Gísli Helgason er tónlistarmaður og lagahöfundur úr Vestmannaeyjum.

Gísli Helgason er fæddur í Vestmannaeyjum 1952, tvíburabróðir hans er Arnþór sem einnig fæddist sjónskertur en varð síðar alveg blindur. Þeir bræður lærðu á hljóðfæri á barnsaldri og nam Gísli blokkflautuleik hjá Oddgeir Kristjánssyni en lærði einnig á klarinettu, blokkflautan hefur þó alltaf verið hans aðalhljóðfæri. Þeir bræður munu hafa komið fyrst fram opinberlega um sjómannadagshelgina 1963 þar sem þeir léku á flautu og orgel, þá voru þeir reyndar fluttir til Reykjavíkur til náms en aðstæður til kennslu fyrir blind og sjónskert börn var ekki til staðar í Eyjum.

Það var svo árið 1981 sem þeir bræður Gísli og Arnþór Helgasynir sendu frá sér plötuna Í bróðerni en sú plata vakti feikimikla athygli t.d. fyrir það að vera fyrsta platan hérlendis sem blokkflautan fær svo mikið vægi, hún inniheldur m.a. stórsmell Gísla, Kvöldsigling við texta Jóns Sigurðssonar sem Ólafur Þórarinsson (Labbi í Mánum) söng, lögin Vestmannaeyjar og Fréttaauki (bæði eftir Arnþór) urðu einnig nokkuð vinsæl. Lögunum á plötunni skiptu þeir bræður nokkuð jafnt á milli sín, samin á árunum 1966-80 en mörg þeirra voru án söngs. Í bróðerni var hljóðrituð í Stúdíó Stemmu hjá Sigurði Rúnari Jónssyni (Didda fiðlu), og fékk hún góða dóma í Poppbók Jens Kr. Guðmundssonar, Degi og tímaritinu TT. Þess má geta að lagið Vestmannaeyjar á plötunni hafði einmitt komið út á plötu Eyjaliðsins árið 1973 en var þarna í gjörbreyttri útsetningu.

Kvöldsigling er án nokkurs vafa þekktasta lag Gísla og hefur margoft verið gefið út í mismunandi útgáfum, Ari Jónsson, Hermann Ingi Hermannsson, Þórunn Lárusdóttir, Islandica og Gísli sjálfur eru meðal þeirra sem gefið hafa lagið út í nýjum útgáfum og hefur það þ.a.l. komið út á fjölda safnplatna einnig.

Stjórnmálastörf

[breyta | breyta frumkóða]

Gísli skipaði 2. sæti á lista F-lista Frjálslynda flokksins í Alþingiskosningunum 2003 í Reykjavíkurkjördæmi suður en flokkurinn kom þar ekki að manni. Þremur árum síðar skipaði Gísli þriðja sæti á framboðslista F-lista Frjálslyndra og óháðra fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006 og tók nokkrum sinnum sæti í borgarstjórn.