Fyrra ópíumstríðið
Fyrra ópíumstríðið var röð af hernaðarátökum milli Stóra Bretlands og hins kínverska Tjingveldis frá 1839 til 1842. Kínverskir ráðamenn reyndu að stemma stigu við ópíumverslun. Ópíumverslun var að mestu í höndum Breta. Bretar höfðu mikla hernaðaryfirburði og yfirbuguðu kínversk stjórnvöld og neyddu þau til samninga sem tryggðu Bretum sérstök forréttindi í viðskiptum við Kína.
Eftirspurn eftir kínverskri munaðarvöru svo sem silki, postulíni og te varð til að þess að ójafnvægi myndaðist í viðskiptum milli Kína og Bretlands og silfur frá Evrópu flæddi til Kína í viðskiptum sem fóru gegnum hafnarborgina Kanton. Breska Austur-Indíufélagið hóf ópíumrækt í Bengal (þar sem nú er Bangladess) og veitti breskum kaupmönnum leyfi til að smygla ópíum ólöglega inn í Kína. Þetta innflæði af eiturlyfjum sneri við viðskiptajöfnuði milli landanna, varð til þess að silfur þvarr í Kína og þess að fjöldi eiturlyfjaneytenda í Kína jókst verulega.