Friðrik Vilhjálmur 3. Prússakonungur
| ||||
Friðrik Vilhjálmur 3.
| ||||
Ríkisár | 16. nóvember 1797 – 7. júní 1840 | |||
Skírnarnafn | Friedrich Wilhelm von Hohenzollern | |||
Fæddur | 3. ágúst 1770 | |||
Potsdam, Prússlandi | ||||
Dáinn | 7. júní 1840 (69 ára) | |||
Berlín, Prússlandi | ||||
Gröf | Charlottenburg-kastala í Berlín | |||
Undirskrift | ||||
Konungsfjölskyldan | ||||
Faðir | Friðrik Vilhjálmur 2. Prússakonungur | |||
Móðir | Frederika Lovísa af Hesse-Darmstadt | |||
Drottning | Lovísa af Mecklenburg-Strelitz, Auguste von Harrach | |||
Börn | Friðrik Vilhjálmur 4., Vilhjálmur 1., Alexandra Fjodorovna, Frederika, Karl, Alexandrína, Ferdinand, Lovísa, Albert |
Friðrik Vilhjálmur 3. (3. ágúst 1770 – 7. júní 1840) var konungur Prússlands frá 16. nóvember 1797 til dauðadags. Hann ríkti í Prússlandi á ólgutímum Napóleonsstyrjaldanna þegar Heilaga rómverska ríkið leið undir lok. Friðrik Vilhjálmur reyndi að feta milliveg milli Frakklands og óvina þess en eftir mikinn hernaðarósigur gegn Frökkum árið 1806 gekk hann loks með semingi í bandalag með óvinum Napóleons. Eftir að Napóleon var sigraður var hann konungur Prússlands á tíma Vínarfundarins, þar sem reynt var að koma á nýju pólitísku skipulagi í Evrópu. Friðrik Vilhjálmur vildi sameina mótmælendakirkjur í Þýskalandi og samræma skipulag þeirra og jafnvel hönnun kirkjanna. Langtímamarkmið hans var að koma öllum mótmælendakirkjum í prússneska kirkjusambandinu undir stjórn krúnunnar.
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Friðrik var sonur Friðriks Vilhjálms 2. Prússakonungs og Frederiku Lovísu af Hesse-Darmstadt. Hann giftist árið 1793 Lovísu af Mecklembourg-Strelitz (1776–1810), dóttur Karls 2. af Mecklembourg-Strelitz. Lovísa var rómuð fyrir fegurð sína og átti eftir að njóta mikilla áhrifa frá árinu 1807 til dauðadags árið 1810. Lovísa varð mjög vinsæl meðal Prússa og öll Hohenzollern-ættin, þar á meðal Friðrik Vilhjálmur, naut góðs af vinsældum hennar.[1]
Friðrik Vilhjálmur barðist í gagnbyltingum í frönsku byltingarstríðunum ásamt föður sínum, þar á meðal í umsátrinu við Mainz.[2]
Valdatíð
[breyta | breyta frumkóða]Friðrik Vilhjálmur 3. varð konungur árið 1797. Hann rak strax ráðgjafa og kennara föður síns, Johann Christoph von Wöllner (1732–1800). Ásamt ráðgjöfum sínum, greifunum von Goltz og von Haugwitz, reyndi hann að viðhalda hlutleysi Prússlands í Napóleonsstyrjöldunum. Með þessu uppskar hann óvild Alexanders 1. Rússakeisara. Friðrik Vilhjálmur tók ekki þátt í þriðja bandalagsstríðinu gegn Napóleoni árið 1805 en gekk loks til liðs við bandamenn vegna þrýstings frá Rússum árið 1806. Her Prússa var gersigraður af Frökkum í orrustunum við Iéna og Auerstaedt. Frakkar ráku Friðrik Vilhjálm og hermenn hans til Austur-Prússlands og þaðan neyddist konungurinn til að flýja í útlegð til hirðar Alexanders Rússakeisara. Þar er sagt að Alexander hafi orðið ástfanginn af Lovísu Prússadrottningu.
Árið 1807 bað Alexander einnig ósigur fyrir Frökkum. Í friðarsáttmála sem hann undirritaði við Tilsit voru Prússar skuldbundnir til að láta af hendi öll landsvæði sín í Póllandi, draga sig austur fyrir Elbufljót og greiða fyrir hernámslið Frakka í Prússlandi. Friðrik Vilhjálmur mótmælti ekki niðurstöðu keisaranna tveggja og virðist hafa skort kjark til að bjóða Napóleoni birginn.[2]
Niðurlæging Prússa af völdum Napóleons hafði mikil áhrif á þjóðarsál Prússlands og hleypti hefndarþorsta í þjóðinna sem Prússar fengu loks svalað í fransk-prússneska stríðinu árið 1870. Friðrik Vilhjálmur var sjálfur tregur til að fara gegn Frökkum á ný en ráðherrar hans, Karl vom Stein, furstinn Karl Ágúst von Hardenberg, Gerhard Johann David von Scharnhorst og greifinn August von Gneisenau, hófust fljótt handa við að endurbyggja prússneska herinn og stjórnsýsluna að áeggjan Lovísu drottningar (sem lést árið 1810 og var Prússum mikill harmadauði).
Árið 1813, eftir að Rússlandsherför Napóleons misheppnaðist og Frakkar neyddust til að hörfa frá Rússlandi snerist Friðrik Vilhjálmur gegn Frökkum og undirritaði nýtt bandalag við Rússa. Hann flúði í kjölfarið frá Berlín, sem var enn undir hernámi Frakka. Þaðan af léku herir Prússa lykilhlutverk í sigri bandamanna gegn Frökkum.
Vínarfundurinn
[breyta | breyta frumkóða]Á Vínarfundinum tókst erindrekum Friðriks Vilhjálms að fá úthlutað miklum landsvæðum, þar á meðal Rínarlandinu, en fengu ekki að innlima Saxland líkt og þeir höfðu vonast til. Þaðan af áttu Prússar landsvæði bæði á austur- og vesturhlutum Þýskalands sem var klofið í miðjunni af Hessen.
Eftir að Friðrik Vilhjálmur var kominn með her á bak við sig á ný var hann fljótur að brjóta loforð sem hann hafði gefið þjóð sinni um að setja Prússlandi stjórnarskrá. Hann sneri baki við frjálslyndishugmyndum von Stein baróns og Hardenbergs og fylgdi þeirra í stað íhaldsstefnu Metternich fursta.
Árið 1824 giftist Friðrik Vilhjálmur í annað sinn, greifynjunni Auguste von Harrach.[1] Þau eignuðust engin börn. Friðrik Vilhjálmur 3. lést árið 1840 og elsti sonur hans, Friðrik Vilhjálmur 4., tók við krúnunni.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 Feldhahn, Ulrich (2011). Die preußischen Könige und Kaiser (German). Kunstverlag Josef Fink, Lindenberg. bls. 17–20.
- ↑ 2,0 2,1 „Frédéric-Guillaume III - Biographie/Napopédia“ (franska). Júlí 2016.
Fyrirrennari: Friðrik Vilhjálmur 2. |
|
Eftirmaður: Friðrik Vilhjálmur 4. |