Fara í innihald

Friðgeir Einar Sigurbjörnsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Friðgeir Einar Sigurbjörnsson

Friðgeir Einar Sigurbjörnsson (1896-1983) var hljóðfærasmiður og hljóðfæraviðgerðarmaður búsettur á Akureyri.

Friðgeir fæddist í Svalbarðsseli í Þistilfirði 6. nóv. 1896 og lést á sjúkrahúsinu á Akureyri 27. jan. 1983. Foreldrar hans voru Sigurbjörn Friðriksson og Sabína Jónsdóttir. Eiginkona Friðgeirs var Halldóra Jóhannesdóttir og eignuðust þau fjögur börn.

Friðgeir byrjaði snemma að fást við smíðar og naut hann tilsagnar hjá hagleiksmanninum Birni í Grjótnesi og hjá honum renndi hann marga rokka ásamt öðrum heimilistækjum. Hann fór í frekara smíðanám til Reykjavíkur og hlaut seinna meistararéttindi í húsgagnasmíðum á Akureyri. Hann vann við húsgagnasmíðar til 1948 en þá varð hann að leggjast inn á Kristneshæli um tíma vegna erfiðra veikinda. Á Kristneshæli byrjaði hann smíði á fyrstu hljóðfærunum (um 1950). Eftir að hann útskrifaðist þaðan tók hann til af krafti við hljóðfærasmíði og starfaði við hana ásamt hljóðfæraviðgerðum allt til dauðadags.

Rafmagnsgítar smíðaður og hannaður af Friðgeiri.
Gítarmót, smíðuð af Friðgeiri.
Þriðji kassagítarinn sem Friðgeir smíðar (um 1950).
Fyrsti gítarinn sem Friðgeir smíðar á Kristneshæli.

Fyrstu hljóðfærin sem hann smíðaði voru kassagítarar en síðar bættust við rafmagnsgítarar, Zither, Kontrabassar og mikið af langspilum. Eins og gefur að skilja var ekki mikið fáanlegt af efni til hljóðfærasmíða á þessum tíma en Friðgeir var úrræðagóður og bjó það til sem vantaði úr öðru fáanlegu efni. Til eru í eigu Gígju dóttur hans smíðamót fyrir rafgítara og kassagítara sem hann gerði. Notaði hann gufu til að sveigja viðinn til eftir þörfum.

Seinna meir komst hann í samband við þýskt fyrirtæki (C.F. Schuster & Sohn í Erlangen) og gat í framhaldi pantað frá þeim það sem hann vanhagaði um til hljóðfærasmíðinnar. Verkstæði sitt nefndi hann Hljóðfæraiðjan Strengir og fór fljótlega að stimpla á hljóðfærin "Strengir FS". Fyrsta aðstaða hans til smíða var hjá bólstrara sem hafði aðstöðu í innbænum, en fljótlega flutti hann starfsemi sína í skúr norðan við Akureyrarvöll og var þar um tíma. Síðar flutti hann með aðstöðu sína í Rauða húsið sem staðsett var í Skipagötunni þar sem Alþýðuhúsið stendur núna.

Einn af þeim fyrstu sem fékk rafmagnsgítar hjá honum er Svavar Lárusson söngvari frá Norðfirði, en Friðgeir smíðaði rafmagnsgítara fyrir marga tónlistarmenn sem starfandi voru á þessum tíma í vinsælum danssveitum m.a. Bjarka Tryggvason söngvara, Jón Pál Bjarnason jassgítarleikara og Edvin Kaaber gítarleikara.

Fyrsta kontrabassann smíðaði hann fyrir Ingvar Níelsson, þá nema í MA, síðar verkfræðing í Tælandi. Alls smíðaði Friðgeir 4-5 kontrabassa skv. því sem kemur fram í viðtali við Morgunblaðið 1977.[1]

Eitt af fjölmörgum langspilum sem Friðgeir smíðaði.

Langspilin sem hann smíðaði fóru víða um heim t.d. til Kanada, Bandaríkjanna, Færeyja, Finnlands, Bretlands, Þýskalands og Nýja Sjálands. Fyrir Savannatríóið smíðaði hann t.d. langspil og þegar frú Vigdís Finnbogadóttir forseti kom í opinbera heimsókn til Akureyrar 1983 var gjöf bæjarins til hennar langspil sem Friðgeir hafði smíðað. Alls smíðaði hann rúmlega 130 langspil.

Friðgeir var mikið í hljóðfæraviðgerðum með hljóðfærasmíðinni og gerði hann við strengjahljóðfæri fyrir aðila í Sinfóníuhljómsveit Íslands, Tónlistarskólann á Akureyri og annað tónlistarfólk á landinu.

  1. „Hefur Smíðað hundruð langspila og gítara“.