Francisco Pizarro

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Francisco Pizarro á olíumálverki eftir óþekktan málara frá því um 1540

Francisco Pizarro y González (16. mars 147826. júní 1541) var spænskur landvinningamaður sem lagði undir sig Inkaveldið og stofnandi borgarinnar Líma í Perú. Hann var frændi Hernán Cortés, fæddist í Trujillo á Spáni og ferðaðist fyrst til Vestur-Indía árið 1502. 1513 fylgdi hann Vasco Núñez de Balboa yfir Panamaeiðið að strönd Kyrrahafsins. Í Panama gerðist hann nautgripabóndi.

Fyrstu leiðangrarnir til Perú[breyta | breyta frumkóða]

1524 frétti hann frá landkönnuðinum Pascual de Andagoya af stóru landi til suðurs sem héti Birú þar sem væri gnægð gulls. 1524 hélt hann með 80 menn í fyrstu landvinningaferð sína með skipi suður eftir ströndinni í félagi við hermann að nafni Diego de Almagro. Skipið náði ekki suður fyrir það sem nú heitir Kólumbía og þeir lentu í slæmu veðri og matarskorti þannig að Pizarro ákvað að snúa heim að svo búnu. 1526 hélt hann í sína aðra ferð og náði þá suður að strönd Perú (við Tumbez) þar sem hann hitti fyrir íbúana og sá lamadýr í fyrsta skipti. Frá íbúunum heyrðu þeir af voldugum konungi í suðri en héldu heim við svo búið. Nýr landstjóri í Panama bannaði þá frekari landkönnun til suðurs þannig að Pizarro hélt til Spánar 1528. Þar hitti hann Karl V sem studdi hann og Ísabella drottning lét hann fá skjal sem heimilaði honum að leggja Perú undir sig.

Sigur á Inkaveldinu[breyta | breyta frumkóða]

Með bréfið upp á vasann hélt Pizarro til Trujillo og fékk bræður sína í lið með sér. Hann sigldi síðan til Nýja heimsins með þrjú skip og 180 menn. 1532 lagði hann að strönd Perú en lenti þá í átökum við innfædda í orrustunni við Puná þar sem þrír af mönnum hans létu lífið. Hernando de Soto, annar landvinningamaður, hélt þá í leiðangur inn í landið og sneri aftur með boð frá Inkanum Atahualpa. Pizarro og menn hans gengu þá í tvo mánuði til að hitta Inkann í Cajamarca. Þegar þangað var komið neitaði Inkinn þeim um leyfi til að vera í landinu þannig að til bardaga kom. Í orrustunni við Cajamarca 16. nóvember 1532 sigruðu Spánverjar her Inkans, tóku heiðursvörð hans af lífi og hann sjálfan til fanga. Pizarro lét síðan dæma hann til dauða fyrir að hafa myrt bróður sinn Hvaskar og gert samsæri gegn Pizarro. Hann var tekinn af lífi með kyrkingu 29. ágúst 1533.

Endalok Pizarros[breyta | breyta frumkóða]

Ári síðar lagði Pizarro undir sig Cusco, höfuðborg Inkaveldisins. Þrátt fyrir að lýsa yfir aðdáun sinni á fegurð borgarinnar ákvað hann að stofna nýja höfuðborg, Líma, við ströndina. Deilur milli Pizarro-bræðra og Almagros um mörk yfirráða þeirra leiddu til orrustunnar í Las Salinas 1538 þar sem Almagro var sigraður og síðan tekinn af lífi. Synir og stuðningsmenn hans skipulögðu síðan samsæri gegn Pizarro og myrtu hann 26. júní 1541.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]