Fara í innihald

Francis Bacon (heimspekingur)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Francis Bacon
Francis Bacon
Persónulegar upplýsingar
Fæddur22. janúar 1561
SvæðiVestræn heimspeki
TímabilNýaldarheimspeki,
(Heimspeki 16. aldar,
Heimspeki 17. aldar)
Skóli/hefðRaunhyggja
Helstu ritverkNýja verkfærið, Nýja Atlantis
Helstu kenningarNýja verkfærið, Nýja Atlantis
Helstu viðfangsefniÞekkingarfræði, Vísindaheimspeki

Francis Bacon (22. janúar 15619. apríl 1626) var enskur heimspekingur, lögfræðingur, rithöfundur og stjórnmálamaður. Hann gagnrýndi ríkjandi heimspeki háskólanna. Í staðinn fylgdi hann raunhyggju, enda stundum nefndur faðir raunhyggjunnar. Bacon taldi að maðurinn ætti að treysta því sem skilningarvitin segðu honum. Hann sagði að þekking væri lykillinn að því að geta stjórnað náttúrunni og þar með bætt líf manna. Frá honum er komin hin fræga setning „mennt er máttur“.

Hann skrifaði bæði um hin nýju vísindi, sem áttu að veita mönnum vald yfir náttúrunni, og um hið nýja samfélag, sem væri fyrirmyndarsamfélag fyrir tilstilli hinna nýju vísinda. Bacon átti sér draum um að mennirnir gætu búið yfir tæknilegu valdi yfir náttúrunni. Hann var mikill unnandi náttúruvísinda. Hann taldi manninn geta fundið lausnir á stjórnmálafræðilegum vandamálum með aðferðafræðum náttúruvísindanna. Fyrir Bacon eru vísindi ætluð sem verkfæri mannsins til þess að ná valdi á náttúrinni og jafnframt bæta samfélagið.

Francis Bacon var yngsti sonur Sir Nicholas Bacon. Móðir hans, Ann Cooke Bacon, seinni kona Sir Nicholas og frænka Sir Anthony Cooke, talaði fimm tungumál og var talin meðal víðmenntuðustu kvenna sinnar tíðar.

Enda þótt það sé ekki vitað fyrir víst er talið að Bacon hafi fengið menntun heima hjá sér í bernsku og að hann hafi verið vanheill heilsu á sínum fyrstu árum sem og æ síðan. Árið 1573, þá þrettán ára gamall, innritaðist hann í Trinity College í Cambridge þar sem hann stundaði nám allt til ársins 1576, í félagsskap við eldri bróður sinn, Anthony.

Í Cambridge lagði Bacon stund á hin aðskiljanlegustu vísindi og komst á þá skoðun að aðferðirnar sem notaðar voru og niðurstöðurnar sem af þeim fengust væru gallaðar. Virðing hans fyrir Aristótelesi, sem hann þó virðist ekki hafa kunnað of góð skil á, var í öfugu hlutfalli við viðhorf hans gagnvart heimspeki hans. Að mati Bacons skorti heimspekina sannkölluð takmörk og nýjar aðferðir við að ná þeim. Bacon hætti í háskóla við fyrsta tækifæri sem honum gafst.

Þann 27 júní árið 1576 héldu þeir bræður til Frakklands þar sem þeir störfuðu í þágu sendiherrans Sir Amyas Paulet. Stjórnmálaástandið í Frakklandi á tímum Hinriks þriðja veitti hinum unga Francis Bacon mikilvæga reynslu, enda neyddist hann til að inna af hendi ýmis viðkvæm verkefni fyrir sendiherrann. Hann bjó í Poitiers en heimsótti París og aðrar helstu borgir Frakklands og viðaði að sér efni í skýrslur um stjórnmálaástand Evrópu.

Árið 1579 sneri Francis aftur til Englands vegna dauða föður síns. Arfurinn reyndist af skornum skammti og þurfti Francis því að sjá sér farborða með öðrum leiðum.

Francis Bacon lagði stund á nám í lögfræði, bókmenntum og ríkiserindisrekstri og vildi með námi sínu ná virðingarstöðu í stjórnmálum. Það tókst honum þegar Jakob fyrsti Englandsonungur komst til valda árið 1603, en Bacon varð ríkislögmaður við hirð hans árið 1613. Árið 1618 varð hann utanríkisráðherra. Bacon lenti í ýmsum vafasömum málum í stjórnmálavafstri sínu, var ásakaður um að ófrægja konung, um spillingu og óheilindi við undirmenn sína. Eigi að síður tókst Bacon að koma út úr stjórnmálaferlinum með reisn, hann hafði safnað sér sjóði sem starfsmaður ríkisins og settist í helgan stein og helgaði sig heimspeki og vísindum, sem og dulhyggju af ýmsu tagi.

Hann dó í London árið 1626 úr lungnabólgu.

Bacon, Sylva sylvarum

Bacon einsetti sér að endurskilgreina vísindalega aðferð. Afleiðslur nutu sín um of á kostnað aðleiðslna að mati Bacon sem vildi eyða öllum forskilningi á heiminum, með því móti mætti rannsaka manninn og umhverfi hans með nákvæmum og yfirveguðum hætti og draga almennar ályktanir. Vísindamaðurinn á umfram allt að vera gagnrýninn að mati Bacon og aldrei að samþykkja skýringar sem ekki eru sannreynanlegar með athugunum og byggja á skynreynslu.

Skrif Bacon falla í þrjá flokka: Heimspeki, bókmenntir og stjórnmál.

  • Frances Yates, Theatre of the World, London: Routledge & Kegan Paul, 1969.
  • Bryan Bevan, The Real Francis Bacon, England: Centaur Press, 1960.
  • Frances Yates, The Occult Philosophy in the Elizabethan Age, London: Routledge & Kegan Paul, 1979
  • Frances Yates, The Rosicrucian Enlightenment, London og Boston: Routledge & Kegan Paul, 1972.
  • Partridge, Christopher (ritstj.), New Religions: A Guide: New Religious Movements, Sects and Alternative Spiritualities: Oxford University Press, USA.
  Þessi heimspekigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.