Framvirkt óminni

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Óminni nefnist það minnisleysi sem verður af völdum sjúkdóma, slysa eða sálrænna áfalla. Tvær megintegundir óminnis eru til, afturvirkt óminni og framvirkt óminni. Þeir sem þjást af framvirku óminni eru ófærir um að flytja nýjar upplýsingar úr skammtímaminni yfir í langtímaminni. Þar af leiðandi er mjög erfitt fyrir viðkomandi að læra eitthvað nýtt. Minningar frá atburðum sem urðu áður en óminnið varð, sem sagt fyrir slysið, sjúkdóminn eða áfallið, eru þá geymdar í langtímaminninu og viðkomandi getur rifjað þær upp en minningarnar um það sem henti hann eftir slysið hafa glatast. Sá sem þjáist af framvirku óminni gæti haldið uppi eðlilegum samræðum við aðra manneskju en um leið og samtalinu lýkur gleymir viðkomandi að það hafi átt sér stað.

Það er þó merkilegt að þó að sjúklingar geti ekki munað það sem þeim hefur verið sagt eða það sem hefur komið fyrir þá, þá eiga þeir mikið auðveldara með að geyma hæfileika til einhvers í minninu. T.d. ef einhverjum er kennt að spila lag á píanó er hann líklegast búinn að gleyma að honum hafi verið kennt lagið en getur þó spilað það ef hann er beðinn um það.

Sá hluti heilans sem hefur verið best rannsakaður þegar kemur að framvirku óminni er drekinn. Hann virðist virka líkt og einskonar hlið sem nýjar minningar þurfa að fara í gegnum áður en þær eru geymdar í langtímaminninu. Ef hann verður fyrir skaða þá hætta nýjar upplýsingar að geta ferðast inn í langtímaminnið. Á meðan eru minningarnar sem fyrir eru í langtímaminninu oftast öruggar þar.

Nánari lesning[breyta | breyta frumkóða]