Flugslysið á Hvammsfirði
Flugslysið á Hvammsfirði var flugslys sem varð 13. mars 1947 er Grumman JRF-6B flugbátur Loftleiða, TF-RVI[1], með átta manns innaborðs, hlekktist á í flugtaki á Hvammsfirði þar sem vélin var að hefja sig á loft frá Búðardal með þeim afleiðingum að fjórir fórust.[2]
Slysið
[breyta | breyta frumkóða]Flugbáturinn var á leið til Reykjavíkur eftir að hafa sótt farþega á Ísafirði og Djúpuvík. Illa gekk að koma vélinni á loft og tókst ekki fyrr en í þriðju tilraun. Komst vélin í um 30 metra hæð, en tók þá snarpa vinstri beygju og féll í sjóinn á vinstri væng og nef og hvolfdi um leið og hún kom í sjóinn. Þrír komust út af sjálfsdáðum og náðu tveimur til viðbótar úr vélinni en þrír af farþegunum komust aldrei út. Róðrarbátur sem hafði flutt fimm farþega frá Búðardal í vélina kom þeim til bjargar og flutti í land. Einn farþeginn komst aldrei til meðvitundar og lést skömmu seinna. Við komuna í land fóru aðrir menn strax út í ferjubátinn og ætluðu að freista þess að ná þeim sem fastir voru í flugvélinni. Þeir voru ekki komnir nema skammt frá landi þegar flugvélarflakið sökk.[3]
Þremur dögum síðar tókst að ná flugvélinni úr sjónum og líkunum þremur sem í henni voru. Við aðgerðina brotnaði vélin í tvennt.[4]
Í skýrslu skoðunarmanns flugvéla kom fram að talið var að annað tveggja hefði valdið slysinu, vélarbilun eða ofris.[4]
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Fjórir fórust í flugslysi hjá Búðardal í gær“. Alþýðublaðið. 14. mars 1947. Sótt 22. maí 2018 – gegnum Tímarit.is.
- ↑ „4 farþegar láta lífið í flugslysi“. Morgunblaðið. 14. mars 1947. Sótt 22. maí 2018 – gegnum Tímarit.is.
- ↑ „Hræðilegt flugslys á Hvammsfirði“. Morgunblaðið. 14. mars 1947. Sótt 22. maí 2018 – gegnum Tímarit.is.
- ↑ 4,0 4,1 „Mannskætt flugslys við Búðardal“. Morgunblaðið. 13. mars 2011. Sótt 22. maí 2018 – gegnum Tímarit.is.