Fara í innihald

Farsi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Auglýsing fyrir farsa eftir George Howells Broadhurst.

Farsi (franska: farce „fylling“) er gamanleikrit þar sem söguþráðurinn einkennist af óvæntum uppákomum, misskilningi, orðaleikjum og ýktum persónum sem farast á mis í hröðum skiptingum. Í farsa er sögusviðið oft það sama allt leikritið í gegn.

Upphaflega var hugtakið notað á miðöldum yfir orð og setningar á frönsku sem skotið var inn í messur á latínu. Síðar var tekið að nota þetta orð yfir stutta gamanleiki sem komu inn í trúarleikrit og voru gjarnan stuttir einleikir eða samtal tveggja persóna. Sem sjálfstæð grein varð farsinn til á 17. öld, einkum í meðförum Moliéres sem skrifaði gamanleikrit ætluð alþýðunni undir áhrifum frá ítalska gamanleiknum. Á þeim tíma varð farsinn þriðja grein leikhússins, tengd alþýðu manna, meðan harmleikurinn tengdist aðlinum og gamanleikurinn borgarastéttinni. Á 19. öld blandast farsinn við aðrar greinar gamanleiks eins og óperettuna, vaudeville og revíu. Í upphafi 20. aldar varð farsinn svo fyrir áhrifum frá kvikmyndum og síðan sjónvarpi. Greinin gekk í gegnum ákveðið blómaskeið í Bretlandi eftir Síðari heimsstyrjöld.