Revía

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Revían Maipo Super Star, sýnd í Teatro Maipo í Búenos Aíres árið 1973.

Revía (úr frönsku revue, „endurskoðun, tímarit“) er tegund af leikhússkemmtun sem sameinar tónlist, dans og stutt gamanatriði. Revían á rætur að rekja til vinsælla skemmtana og æsingaleikrita frá 19. öld, en þróaðist út að verða sérstök tegund skemmtunar á gullaldarárum sínum frá 1916 til 1932.[1] Á Norðurlöndunum voru fyrstu revíurnar nýársskemmtanir fluttar í samkomuhúsum um miðja 19. öld, sem seinna þróuðust út í sumarrevíur fyrir borgaralega áhorfendur í sumarfríi á landsbyggðinni. Undir lok 19. aldar varð tónleikahússrevían til í Frakklandi sem varð þekkt fyrir íburðamiklar danssýningar. Revíur drógu oft dár að þekktum persónum úr fréttum eða bókmenntum. Líkt og óperettan og söngleikurinn sameinar revían ólík listform; tónlist, dans og gamanleik, til að búa til skemmtilega sýningu. Öfugt við óperettur og söngleiki er revían ekki með gegnumgangandi söguþráð. Í staðinn er almennt skilgreint þema eða „rauður þráður“ sem myndar yfirskrift fyrir laustengda röð af skemmtiatriðum, þar sem skemmtikraftar og dansatriði skiptast á.

Hátt miðaverð, áberandi auglýsingaherferðir og lostafullt efni drógu að áhorfendur sem þénuðu meira og fannst þeir minna bundnir af millistéttarsiðgæði en á hinum náskyldu vaudeville-skemmtunum. Líkt og margar vinsælar skemmtanir þess tíma, innihéldu revíur oft listrænar, en óvirðilegar greiningar á málefnum, opinberum persónum og tískufyrirbærum, þótt aðalaðdráttarafl sýninganna hafi verið fáklæddar dansmeyjar.

Revían er náskyld vaudeville, variéte, music hall og kabarett, og misjafnt er hvert þessara hugtaka á við eftir stað og tímabili, þótt um svipaðar sýningar sé að ræða.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Revue | theatre“. Encyclopedia Britannica (enska). Sótt 26. janúar 2021.