Fara í innihald

Stjórnleysis-félagshyggja

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Félagshyggjustjórnleysi)

Stjórnleysis-félagshyggja (eða stjórnleysis-sósíalismi; e. social anarchism), eru ýmis afbrigði stjórnleysisstefnu sem einkennast fyrst og fremst af andstöðu við markaðshagkerfi. Félagshyggjustjórnleysi er fjölmennara meginafbrigði stjórnleysisstefnu, en hitt er stjórnleysis einstaklingshyggja. Stefnan hefur verið tengd róttækum verkalýðsfélögum og ýmsum bændahreyfingum frá upphafi, en hún hefur einnig orðið fyrir áhrifum úr ýmsum öðrum áttum. Ólíkt einstaklingshyggjustjórnleysi hafa félagshyggjustjórnleysingjar sögulega lagt mikla áherslu á nauðsyn félagslegrar byltingar, og telja almennt að ekki sé hægt að ná fram stjórnleysi með hægfara umbótum. Sögulega má segja að þrír meginstraumar hafi ráðið ferð í stefnunni: Stjórnleysis samyrkju-, sameignar- og samtakahyggjur.

Stjórnleysis-samyrkjustefna

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnleysis-samyrkjuhyggja markaði upphaf félagshyggjustjórnleysis, en nafnið fékk hún ekki fyrr en önnur afbrigði höfðu komið fram. Helsti munurinn á samyrkjuhyggjumönnum og sameignarhyggjumönnum felst í því að samyrkjuhyggjumenn telja að einhverskonar umbunarkerfi yrði nauðsynlegt fyrst eftir byltinguna.

Stjórnleysis-sameignarstefna

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnleysis-sameignarstefna byggir á þeirri hugmynd að ekki sé hægt að ákvarða hver „réttmæt“ umbun einstaklings er, og því sé ekki hægt að gera neinn mannamun í skiptingu lífsgæða. Þeir halda því ennfremur fram að nauðsynlegt sé að framfylgja þessari hugmynd strax frá upphafi, enda sé annars hætta á því að ný skiptingarkerfi festist í sessi.

Stjórnleysis-samtakahyggja

[breyta | breyta frumkóða]

Stjórnleysis-samtakahyggja, ólíkt hinum tveimur greinunum, snýst fyrst og fremst um ákveðna aðferðafræði. Áhangendur hennar telja að skipulag framtíðarsamfélagsins verði að endurspeglast í þeim stofnunum og samtökum sem stefna að myndun þess og leggja í því skyni fram ákveðið skipulag á verkalýðsfélögum. Á margan hátt má telja samtakahyggjuna vera arftaka samyrkjuhyggju en þó er ekki erfitt að finna sameignarhyggjumenn sem einnig aðhyllast hugmyndir samtakahyggjunnar.