Fara í innihald

Fènghuáng

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fènghuáng er einnig sýsla í vestanverðu Hunan-héraði í Kína. Nafn þess er skrifað með sömu táknum og nafn goðsagnaverunnar.
Stytta af fènghuáng, Nanning-borg, Guangxi-héraði í Kína

Fènghuáng (kínversk tákn: 鳳凰, er tegund goðsögulegra kínverskra fugla, sem ríkir yfir öllum öðrum fuglum. Karldýrin eru kölluð fèng (鳳) og kvendýrin huáng (凰). Í nútímanum hefur þessi aðgreining þó að mestu horfið, og fènghuáng orðið að kvenkyns dýri sem gjarnan er parað saman við kínverska drekann, en hann er yfirleitt karlkenndur. Á vesturlöndum er hann oft kallaður kínverskur fönix.

Fènghuáng er sagður saman settur úr goggi hana, andliti svölu, háls snáks, bringu gæsar, bak skjaldböku, afturhluta hjartar, og sporði fisks.

Fènghuáng er tákn dyggða og náðar, en einnig sameiningar yin og yang. Hann birtist á friðar- og góðæristímum, en felur sig þegar ófriður nálgast. Það er því talið góðs viti og mikið fagnaðarefni að koma auga á hann.

Diskur skreyttur myndum af fènghuáng

Fènghuáng er á myndum oft sýndur með vængi útbreidda í miðjum klíðum við að ráðast á snáka með klónum. Myndir af honum hafa verið til í Kína í meira en 7000 ár, og eru oft skornar í gimsteina og bornar sem lukkugripir. Í Kína til forna voru myndir af fènghuáng notaðar í skreytingar hjá kóngafólki og í brúðkaupum, ásamt drekum, því að drekinn og fönixinn gátu táknað farsælt samband keisara og keisaraynju (eða eiginmanns og eiginkonu). Þegar hús var skreytt myndum af honum táknaði fènghuáng að tryggð og heiðarleiki byggi í íbúum þess.