Fara í innihald

Eysteinn Ásgrímsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Eysteinn Ásgrímsson (d. 14. mars 1361) var íslenskur munkur og skáld á 14. öld. Hann tilheyrði Ágústínusarreglu og var fyrst í Þykkvabæjarklaustri. Um ætt hans og uppruna er ekki vitað. Hann virðist hafa verið breyskur og uppivöðslusamur framan af og er talið að hann hafi verið einn þeirra þriggja munka sem Jón Sigurðsson Skálholtsbiskup lét handtaka og setja í járn í klaustrinu haustið 1343. Þeir höfðu barið Þorlák ábóta og hrakið hann burt, orðið berir að saurlífi og jafnvel barneignum.

Nokkru síðar virðist Eysteinn hafa gert yfirbót og sátt við biskup því hann var gerður að officialis í Helgafellsklaustri 1349. Hann var seinna handgenginn Gyrði biskupi Ívarssyni og ferðaðist með honum í vísitasíuferðum 1353-1354. Árið 1355 fóru þeir saman til Noregs og kom biskup heim árið eftir en Eysteinn var tekinn í klaustrið í Helgisetri við Niðarós. Hann kom þó heim 1357 og þá í fylgd Eyjólfs Brandssonar kórsbróður. Þeir voru eins konar eftirlitsfulltrúar erkibiskupsins í Niðarósi. Þeir létu ýmis mál til sín taka og kom fljótt til árekstra á milli þeirra og Gyrðis biskups. Sagt er að Eysteinn hafi ort níð um biskup, sem bannfærði hann 1359.

Gyrðir ætlaði til Noregs sama ár að kæra þá fyrir erkibiskupi en áður en af því yrði sættust þeir. Virðist hafa farið vel á með þeim eftir það en báðir áttu skammt eftir. Þeir sigldu til Noregs hvor með sínu skipi; skipið sem biskup var á fórst í hafi en skipið sem Eysteinn var á kom að landi á Hálogalandi mjög seint um haustið eftir mikla hrakninga og voru allir um borð að þrotum komnir. Eysteinn komst loks í klaustrið í Helgisetri snemma árs 1361 og dó þar skömmu síðar.

Eysteinn er talinn hafa ort helgikvæðið Lilju og hefur þess verið getið til að það hafi annaðhvort verið ort þegar hann sat í járnum í Þykkvabæjarklaustri eða eftir að hann sættist við Gyrði biskup en ekkert er vitað um það með vissu.

  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.