Fara í innihald

Exxon Valdez-olíulekinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Exxon valdez olíulekinn)
Olíuskipið, Exxon Valdez

Exxon Valdez olíulekinn átti sér stað þann 24. mars 1989, við strendur Alaska á svæði sem nefnist Prince William Sound. Olíuskipið Exxon Valdez strandaði þá á rifi og láku um 40 til 140 milljón lítrar af hráolíu í hafið. Að endanum þakti olían um 2.100 km af strandlengju og um 28.000 ferkílómetra af sjó.[1] Olíulekinn er eitt mesta umhverfisslys sögunnar af manna völdum og sá stærsti í bandarískri lögsögu þangað til Deepwater Horizon-slysið varð í Mexíkóflóa, árið 2010.[2]

Þar sem Prince William Sound er afskekkt svæði og langt frá byggð, urðu öll viðbrögð stjórnvalda og einkageirans hæg. Tæki notuð til hreinsunar komust ekki á áfangastað nógu snemma og náði á endanum eingöngu að hreinsa um 10% af allri olíu sem lak í hafið.[3]

Áhrif á umhverfið

[breyta | breyta frumkóða]
Olíupollur við strönd Alaska

Ítarlegar rannsóknir hafa verið gerðar á bæði langtíma og skammtíma áhrifum vegna lekans. Allt að 250.000 sjófuglar létust í kjölfar lekans, um 2.800 sjóotrar, um 300 selir, um 250 skallaernir, um 22 háhyrningar og umtalsverður fjöldi af lax og síld.[4] Árið 2003, fimmtán árum eftir slysið, kom í ljós að olían í hafinu væri þaulsetnari en áður hafði verið talið og að fjölmargar dýrategundir á svæðinu væru langt frá því að ná fyrri stofnstyrk. Var áætlað að það tæki allt að þrjátíu ár til að aðstæður myndu komast í eðlilegt horf.[5]

Exxon Mobil hélt því fram árið 2006 að Prince William Sound svæðið hefði náð að jafna sig og að vistkerfin þar döfnuðu vel. Bentu þeir á sínar eigin rannsóknir.[6] Hinsvegar hafa bæði sjálfsstæð náttúrusamtök sem og hafrannsóknarstofnun Bandaríkjanna (NOAA) hafnað þeim fullyrðingum.[7]

Árið 2014, gaf NOAA út skýrslu um stöðu svæðisins þá 25 árum eftir slysið. Kom þar í ljós að fjölmargir dýrastofnar hefðu náð að jafna sig og komnir aftur í líkar tölur fyrir slys. Hinsvegar væru aðrir stofnar í bráðri hættu og talið að háhyrningahjarðir myndi deyja út. Ennfremur er áætlað að um 87 fermetra svæði sé enn þakið olíu og niðurbrot þess sé um 4% á ári.[8]

Pólitískar og efnahagslegar afleiðingar

[breyta | breyta frumkóða]

Í kjölfar slyssins setti Bandaríkjaþing lög (Oil Pollution Act 1990) sem fyrirskipuðu aukið eftirlit með olíutönkum við strendur Bandaríkjanna auk þess að fyrirskipa, í skrefum, tvöfaldan skipskrokk á öllum olíuskipum.[9] Efnahagslegar afleiðingar fyrir Alaskafylki voru fjölmargar. Ýmiss fyrirtæki lögðust af vegna lekans. Slysið olli einnig miklu tjóni í fiskimiðum, ferðamannageiranum, íþróttum og tómstundum og það sem kallað er „tilveruverðmæti“ (existence value), sem er það verðmæti sem almenningur leggur á óspillt svæði.[10]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Ott, Riki. How Much Oil Really Spilled From the Exxon Valdez? (hljóðútgáfa). Viðtal við Brooke Gladstone. On The Media. National Public Radio
  2. Hazardous Materials Response and Assessment Division (1992). "Oil Spill Case Histories 1967–1991, Report No. HMRAD 92-11" (PDF). Seattle: National Oceanic and Atmospheric Administration.
  3. Skinner, Samuel K; Reilly, William K. (1989). The Exxon Valdez Oil Spill. National Response Team.
  4. Graham, Sarah (2003). "Environmental Effects of Exxon Valdez Spill Still Being Felt". Scientific American.
  5. Williamson, David (2003). "Exxon Valdez oil spill effects lasting far longer than expected, scientists say". UNC/News.
  6. Australian Broadcasting Corporation. (2006). "Exxon Valdez oil spill still a threat: study".
  7. Australian Broadcasting Corporation. (2006). "Exxon Valdez oil spill still a threat: study".
  8. Federal Register / Vol. 75, No. 14 (Jan, 2010)
  9. "Oil Pollution Act of 1990 – Summary". Federal Wildlife and Related Laws Handbook. (1990)
  10. Exxon Valdez Oil Spill Trustee Council. Economic Impacts of Spilled Oil, Publications. (2008)