Exxon Valdez-olíulekinn
Exxon Valdez olíulekinn átti sér stað þann 24. mars 1989, við strendur Alaska á svæði sem nefnist Prince William Sound. Olíuskipið Exxon Valdez strandaði þá á rifi og láku um 40 til 140 milljón lítrar af hráolíu í hafið. Að endanum þakti olían um 2.100 km af strandlengju og um 28.000 ferkílómetra af sjó.[1] Olíulekinn er eitt mesta umhverfisslys sögunnar af manna völdum og sá stærsti í bandarískri lögsögu þangað til Deepwater Horizon-slysið varð í Mexíkóflóa, árið 2010.[2]
Hreinsun
[breyta | breyta frumkóða]Þar sem Prince William Sound er afskekkt svæði og langt frá byggð, urðu öll viðbrögð stjórnvalda og einkageirans hæg. Tæki notuð til hreinsunar komust ekki á áfangastað nógu snemma og náði á endanum eingöngu að hreinsa um 10% af allri olíu sem lak í hafið.[3]
Áhrif á umhverfið
[breyta | breyta frumkóða]Ítarlegar rannsóknir hafa verið gerðar á bæði langtíma og skammtíma áhrifum vegna lekans. Allt að 250.000 sjófuglar létust í kjölfar lekans, um 2.800 sjóotrar, um 300 selir, um 250 skallaernir, um 22 háhyrningar og umtalsverður fjöldi af lax og síld.[4] Árið 2003, fimmtán árum eftir slysið, kom í ljós að olían í hafinu væri þaulsetnari en áður hafði verið talið og að fjölmargar dýrategundir á svæðinu væru langt frá því að ná fyrri stofnstyrk. Var áætlað að það tæki allt að þrjátíu ár til að aðstæður myndu komast í eðlilegt horf.[5]
Exxon Mobil hélt því fram árið 2006 að Prince William Sound svæðið hefði náð að jafna sig og að vistkerfin þar döfnuðu vel. Bentu þeir á sínar eigin rannsóknir.[6] Hinsvegar hafa bæði sjálfsstæð náttúrusamtök sem og hafrannsóknarstofnun Bandaríkjanna (NOAA) hafnað þeim fullyrðingum.[7]
Árið 2014, gaf NOAA út skýrslu um stöðu svæðisins þá 25 árum eftir slysið. Kom þar í ljós að fjölmargir dýrastofnar hefðu náð að jafna sig og komnir aftur í líkar tölur fyrir slys. Hinsvegar væru aðrir stofnar í bráðri hættu og talið að háhyrningahjarðir myndi deyja út. Ennfremur er áætlað að um 87 fermetra svæði sé enn þakið olíu og niðurbrot þess sé um 4% á ári.[8]
Pólitískar og efnahagslegar afleiðingar
[breyta | breyta frumkóða]Í kjölfar slyssins setti Bandaríkjaþing lög (Oil Pollution Act 1990) sem fyrirskipuðu aukið eftirlit með olíutönkum við strendur Bandaríkjanna auk þess að fyrirskipa, í skrefum, tvöfaldan skipskrokk á öllum olíuskipum.[9] Efnahagslegar afleiðingar fyrir Alaskafylki voru fjölmargar. Ýmiss fyrirtæki lögðust af vegna lekans. Slysið olli einnig miklu tjóni í fiskimiðum, ferðamannageiranum, íþróttum og tómstundum og það sem kallað er „tilveruverðmæti“ (existence value), sem er það verðmæti sem almenningur leggur á óspillt svæði.[10]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Ott, Riki. How Much Oil Really Spilled From the Exxon Valdez? (hljóðútgáfa). Viðtal við Brooke Gladstone. On The Media. National Public Radio
- ↑ Hazardous Materials Response and Assessment Division (1992). "Oil Spill Case Histories 1967–1991, Report No. HMRAD 92-11" (PDF). Seattle: National Oceanic and Atmospheric Administration.
- ↑ Skinner, Samuel K; Reilly, William K. (1989). The Exxon Valdez Oil Spill. National Response Team.
- ↑ Graham, Sarah (2003). "Environmental Effects of Exxon Valdez Spill Still Being Felt". Scientific American.
- ↑ Williamson, David (2003). "Exxon Valdez oil spill effects lasting far longer than expected, scientists say". UNC/News.
- ↑ Australian Broadcasting Corporation. (2006). "Exxon Valdez oil spill still a threat: study".
- ↑ Australian Broadcasting Corporation. (2006). "Exxon Valdez oil spill still a threat: study".
- ↑ Federal Register / Vol. 75, No. 14 (Jan, 2010)
- ↑ "Oil Pollution Act of 1990 – Summary". Federal Wildlife and Related Laws Handbook. (1990)
- ↑ Exxon Valdez Oil Spill Trustee Council. Economic Impacts of Spilled Oil, Publications. (2008)