Eftirlit með myndavélum

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Eftirlitsmyndavélar á húshorni.

Eftirlit með myndavélum á við notkun myndavélar til vöktunar tiltekins svæðis. Myndir eru sendar úr myndavélinni um lokað net til aðilans sem fer með eftirlitið. Slíkur búnaður er oft notaður í verslunum, bönkum og öðrum stofnunum þar sem þörf er á auknu öryggi.

Eftirlit með myndavélum er orðið algengt um allan heim. Deilt er um skilvirkni þess og félagslega þætti eins og rétt einstaklinga til einkalífs, jafnvel í almannarými. Talið er að um það bil 350 milljónir eftirlitsmyndavéla hafi verið í notkun árið 2016 um allan heim, þar af 65% í Asíu. Þó hefur dregið úr uppsetningu nýrra eftirlitsmyndavéla.[1]

Á Íslandi[breyta | breyta frumkóða]

Engar nákvæmar tölur eru til um fjölda virkra eftirlitsmyndavéla á Íslandi. Í rannsókn frá 2010 voru eftirlitsmyndavélar í miðborg Reykjavíkur taldar og voru 290 þeirra skráðar og staðsettar.[2]

Eftir hvarf Birnu Brjánsdóttur árið 2017 skapaðist umræða um staðsetningu eftirlitsmyndavéla í miðbæ Reykjavíkur og skilvirkni þeirra. Í rannsókn málsins voru fengnar myndir úr eftirlitsmyndavélum í miðbænum en bílnúmer á myndunum voru ólæsileg. Í ljós kom að fjórar af tólf myndavélum voru ekki virkar og að hreyfiskynjarar fóru ekki í gang þegar gengið var framhjá myndavélunum. Í kjölfarið setti lögreglan upp 25 nýjar myndavélar vítt um miðbæinn.[3]

Ýmis lög gilda um eftirlit með myndavélum. Á Íslandi kveður fjórða grein persónuverndarlaga á um að rafrænt eftirlit (eins og með myndavélum) fari fram með sanngjörnum, málefnalegum og löglegum hætti. Áður en hafist er handa við upptökur skal þær tilkynna til Persónuverndar. Sé heimild ekki fengin frá Persónuvernd getur hún látið stöðva starfsemi viðkomandi rekstraraðila eða lagt dagsektir á hann.[4]

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Rise of Surveillance Camera Installed Base Slows“. Sótt 31. janúar 2018.
  2. „„Að fæla fólk frá..." — Eftirlitsmyndavélar í miðborg Reykjavíkur“ (PDF). Sótt 31. janúar 2018.
  3. Fylgjast betur með í bænum eftir hvarf Birnu“, Vísir, 4. maí 2017.
  4. „Gilda einhver lög um eftirlitsmyndavélar sem fylgjast með starfsfólki á vinnustað?“. Sótt 31. janúar 2018.
  Þessi grein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.