Drekamóðirin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Drekamóðirin

Drekamóðirin (Longmu) (kínverska: 龍母), var kínversk kona sem var tekin í guðatölu eftir að hafa alið fimm dreka og notað þá til að bjarga heimabæ sínum frá slæmu þurrkatímabili. Hún er einnig þekkt sem verndargyðja Xi árinnar og tákngervingur ástarinnar sem foreldrar helga börnum sínum.

Uppruni[breyta | breyta frumkóða]

Stúlkan Wen Shi fæddist í Guangdong-héraði í Kína árið 290 f. Kr. Hún var önnur dóttir foreldra sinna, Wen Tianrui og Liang Shi, og átti tvær systur. Fjölskylda hennar var fátæk og bjó úti í sveit nálægt Xi ánni. Sagan segir að Wen Shi hafi verið að veiða í matinn og þvo þvott af fjölskyldu sinni þegar hún fann stóran stein sem hún ákvað að taka með sér heim. Steinninn reyndist vera egg sem úr komu fimm snákar skömmu síðar. Þrátt fyrir erfiða fjárhagsstöðu fjölskyldunnar hugsaði Wen Shi um snákana fimm af öllu hjarta og gaf þeim alltaf besta matinn sem var í boði. Snákarnir hjálpuðu henni að veiða fisk þar sem þeir gátu synt hratt í ánni. Á endanum urðu þessir snákar að drekum. Í Kína eru drekar taldir andar vatnsins og eiga því að geta stjórnað veðrinu. Wen Shi nýtti sér einstakt samband sitt við drekaungana sína og fékk þá til að skapa rigningu sem batt enda á langt þurrkatímabil í þorpinu hennar. Til að sýna þakklæti sitt gáfu þorpsbúarnir henni nafnbótina „guðdómleg mannvera“ og byrjuðu að kalla hana „Drekamóðurina“.

Qin Shi Huang (259-210 f.Kr.), fyrsti keisari Kína, heyrði sögu Wen Shi og vildi hylla hana fyrir óeigingjarnt starf sitt. Hann sendi henni gjafir og óskaði eftir því að hitta hana í höfuðborginni Xianyang. Þá var Wen Shi orðin gömul kona og drekarnir vildu ekki að hún færi svo langt að heiman. Þeir steyptu sér því undir bátinn sem hún ætlaði að ferðast í og drógu hann til baka. Ekkert varð því úr heimsókn hennar til keisarans.

Eftir að Wen Shi lést fylltust drekarnir sorg og tóku á sig mannlega mynd. Þeir urðu þekktir sem „fræðimennirnir fimm“.

Átrúnaður[breyta | breyta frumkóða]

Verndargyðja Xi árinnar[breyta | breyta frumkóða]

Í kínverskri hjátrú eru drekar meðal annars taldir tákna vatn, regn eða ár. Drekamóðirin var gerð að verndargyðju Xi-árinnar vegna þess að hún á að hafa fundið drekaeggið við árbakka hennar. Hún varð afar mikilvæg fólki sem bjó eða starfaði við ána og ferðaðist um hana daglega. Lítil altari eða skríni voru gerð henni til heiðurs á árbökkunum og fundust einnig á nærri öllum skipum sem fóru þar um reglulega. Hún var talin geta „tamið ána“ og komið í veg fyrir flóð með hjálp drekanna. Afmæli Longmu er á áttunda degi fimmta tunglmánaðar, í byrjun maí, sem er jafnframt tíminn þar sem mest hætta er á flóðum í Xi ánni.

Trú á Drekamóðurina var því upprunalega mest í samfélögum í kringum Xi-ána, en með tímanum virðist hún hafa breiðst út og er í dag tiltölulega útbreidd, meðal annars í Hong Kong. Hún er ekki tengd við ákveðin trúarbrögð heldur er vinsæl víða um Kína með mismunandi áherslum.

Gyðja foreldra og barna[breyta | breyta frumkóða]

Auk þess að vera verndargyðja Xi árinnar hefur Longmu verið gerð að tákni fyrir foreldraást og tryggð. Fyrir mörgum er fórn hennar til drekanna sem hún ól tákn um skilyrðislausa ást og hollustu foreldra til barna sinna. Fjölskyldan og sambönd innan hennar eru afar mikilvæg í kínversku samfélagi og því er skiljanlegt að hún sé vinsæl gyðja. Wen Shi gerði allt sem hún gat til þess að drekarnir hennar fengju sem besta ævi og þegar hún var orðin eldri hugsuðu drekarnir um hana á móti. Þetta er dæmisaga um hvernig samband foreldra og barna á að vera í Kína, foreldrarnir gefa börnunum líf og því eiga börnin að færa sömu fórn þegar foreldrarnir eru hættir að geta hugsað um sig sjálfir. Vegna þess að Longmu var kona er einnig líklegt að margar mæður tengi við sögu hennar og finnist hún verðug fyrirmynd.

Tilbeiðslustaðir[breyta | breyta frumkóða]

Yuecheng Hof[breyta | breyta frumkóða]

Longmu hofið í Yuecheng

Longmu Forfeðrahofið (áður Xiaotong) var byggt á dögum fyrri Han ættar til heiðurs Drekamóðurinni. Hofið stendur í bænum Yuecheng undir Fimm-Dreka fjalli. Það er eitt vinsælasta hof Guangdong héraðs og tugir þúsunda pílagríma leggja leið sína þangað ár hvert. Fólk sækir þangað til að leita til Drekamóðurinnar sem á að geta komið í veg fyrir slæm örlög og aðstoðað við ýmsa erfiðleika. Þar sem hofið er nærri heimaslóðum Wen Shi er það talið heilagasta hofið sem er tileinkað henni sem útskýrir vinsældir þess. Í hofinu stendur enn tafla með texta til heiðurs Drekamóðurinnar sem var ritaður að beiðni Hong Wu, fyrsta keisara Ming ættarinnar. Hofið hefur verið gert upp alls 13 sinnum í gegnum aldirnar, síðast árið 1985.

Baisha Hof[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1587 var Baisha Hof byggt í Zhaoqing borg á árbakka Xi árinnar. Því er ekki haldið við en var gert að sérstökum menningarstað af Zhaoqing borg árið 1982.

Long Mo Hof á Peng Chau eyju, Hong Kong

Hof í Hong Kong[breyta | breyta frumkóða]

Longmu (Lung Mo) er vinsæl gyðja í Hong Kong og eru nokkur hof tileinkuð henni þar. Eitt þeirra er Long Mo Hofið sem staðsett er á Peng Chau-eyju. Það er stærsta hof eyjunnar og bar byggt fyrir yfir 40 árum síðan. Inni í hofinu er "drekarúm" sem gestir snerta til að losa sig við ólukku og til þess að spá fyrir um framtíð þeirra. Rúmið er talið búa yfir sérstökum krafti sem á að færa fólki heppni.