Dietrich van Bramstedt
Dietrich van Bramstedt eða Diðrik af Bramstad var hirðstjóri á Íslandi á 16. öld, skipaður þann 12. apríl 1529 af Friðrik 1. Danakonungi til fimm ára fyrir margfalda, trúa og þægilega þjónustu.
Hann var á Alþingi sumarið 1530 og kallast þar kóngsins fógeti en heitin hirðstjóri, höfuðsmaður og fógeti virðast á þessum tíma oft notuð jöfnum höndum um sama enbættið og er Dietrich kallaður þetta allt í bréfum frá sama ári. Hann var líka á Alþingi 1533 en hefur líklega farið utan þá um haustið, enda rann umboð hans út næsta vor.
Hann vildi þó fá skipun sína endurnýjaða en um þessar mundir var enginn konungur í Danmörku, Friðrik 1. lést í apríl 1533 en Kristján 3. sonur hans varð ekki konungur fyrr en í júlí 1534 vegna andstöðu í danska ríkisráðinu og ýmsir vildu fá útlæga konunginn Kristján 2. aftur í hásætið. Dietrich van Bramstedt fékk þó hirðstjórn á Íslandi til þriggja ára hjá Kristjáni 3. eftir að hann var tekinn við. En Norðmenn höfðu ekki viðurkennt hann sem konung, heldur fylgdu Kristjáni 2., og skipaði norska ríkisráðið ásamt Ólafi erkibiskupi í Niðarósi íslensku biskupana tvo, Ögmund Pálsson og Jón Arason, hirðstjóra á Íslandi, og tóku þeir við henni 1534.
Einnig hafði Markús nokkur Meyer fengið skipunarbréf sem hirðstjóri á Íslandi hjá Kristófer greifa af Oldenburg-Delmenhorst, frænda og helsta stuðningsmanni Kristjáns 2. (hann var sá sem greifastríðið dró nafn af). Öll þessi þrjú bréf voru lögð fram á Alþingi 1535 og rædd þar og kom öllum saman um að hvorki hertoginn (þ.e. Kristján 3.) né greifinn ætti rétt á að skipa hirðstjóra þar sem hvorugur væri réttur konungur Noregs, en honum hefðu Íslendingar svarið eiða sína. Skyldu því biskuparnir teljast hirðstjórar og engir skattar greiðast af landinu fyrr en Noregur hefði fengið konung. Dietrich van Bramstedt og Markús Meyer sátu því eftir með sárt ennið.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Safn til sögu Íslands. 2. bindi, Kaupmannahöfn 1886.
- Íslenskt fornbréfasafn, 9. bindi, Reykjavík 1909-1913.
Fyrirrennari: Jóhann Pétursson |
|
Eftirmaður: Jón Arason Ögmundur Pálsson |