Fleygrúnir

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Cuneiform)

Fleygrúnir (Cuneiform) eru letur, að því er talið elsta þekkta skriftarformið og var notað í Persíu, Súmer og Babýlóníu frá því um 2500 f.Kr. til um 1000 f.Kr.. Kerfið var tölulegt atkvæðatáknróf, en hvert orð hafði hljóðgildi og tölugildi. Til dæmis var talan 1 táknuð með einum lóðréttum fleyg en sama tákn var borið fram sem „ane“ og þýddi naut. Í hebresku þekkist samskonar tákn, (áður fyrr skrifað , sem er líkt einum fleyg), sem „aleph“, og þýðir einnig naut þar. Grikkir sneru þessu tákni við og kölluðu það „alpha“, en héldu sömu merkingu um þó nokkurt skeið. Dæmi um mikilvægt orð í þessu kerfi er , Anu, nafn æðsta guðs Súmera. Eins og sést á þessu var ritað frá hægri til vinstri í þessu ritkerfi en línurnar fóru niður á við og dálkar færðust æ lengra til hægri. Fyrstu ritin sem voru skrifuð í þessu ritkerfi voru skattaskrár en elsta frásögn, sem fundist hefur, var skrifuð á leirtöflur með þessu letri (og raunar einnig öðrum) en það var Gilgamesarkviða.

Að skrifa fleygrúnir[breyta | breyta frumkóða]

Fleygrúnir voru ritaðar á leirtöflur með bitlitlum reyrstöfum. Reyrstafurinn virkaði þá eins og penni eða blýantur. Stafirnir eða förin eftir reyrstafinn voru fleyglaga, sem varð kveikjan að nafngiftinni Cuneiform (sem þýðir í raun „fleyglaga“). Eftir að ritað hafði verið á leirtöflurnar voru þær sólþurrkaðar úti eða brenndar í leirbrennsluofni. Þessar töflur voru í raun „leirskjöl“ og urðu að fyrstu gagnasöfnunum og bókasöfnum. Mismunandi gerðir fleygrúna eru til, líkt og hinar ýmsu gerðir ritmála eru til í dag.[1]

Mikill meirihluti fleygrúna var ritaður á leirtöflur. Fleygrúnir ritaðar til minningar eða tileinkunar má þó finna á steinum, fílabeinum, málmi og gleri. Leir var auðfundinn og aðgengilegur í Mesópótamíu, en þurfti þó jafnan nokkurs undirbúnings við til að tryggja rétt gæði. Þetta gilti sérstaklega þegar verið var að rita á leirtöflur sem átti að varðveita sem nokkurs konar heimildasafn.

Það að búa til töflu af réttri stærð með góðu, sléttu yfirborði hefur sennilega verið eitt það fyrsta sem „fleygrúnalærlingar“ þurftu að tileinka sér. Framhlið töflunnar var eins flöt og mögulegt var en bakhlið oft kúpt. Bakhliðin var þó stundum einnig sléttuð svo hægt væri að rita báðum megin.

Það fyrsta sem nemandi þurfti að læra þegar kom að fleygrúnum var að búa til töflu og handleika reyrstafinn. Þegar kom að því að skrifa mátti nota alls konar leir en læra þurfti hvernig átti að þrýsta stafnum í leirinn og mynda fleyglaga form rúnanna. Nemandinn æfði láréttar, lóðréttar og hallandi fleyglaga línur aftur og aftur. Því næst var byrjað á grunntáknunum. Ekki þurfti aðeins að læra formið sjálft, heldur einnig fyrir hvaða atkvæði hvert tákn gat staðið. Eftir að hafa lært grundvallaratriðin þurfti nemandinn því næst að læra allar þær þúsundir súmerskra orða sem tjáð voru með fleiri en einu tákni. Að því loknu var nemandinn tilbúinn fyrir næsta stig. Kennarinn skrifaði þá yfirleitt þrjár línur á litla hringlaga töflu, til dæmis guðanöfn, tæknileg atriði eða brot úr bókmenntum eða orðskviðum. Nemandinn þurfti að skoða línurnar rækilega, snúa töflunni svo við og endurgera línurnar þrjár. Að lokum var nemandinn svo kominn á það stig að geta lært og skrifað súmerskar bókmenntir.

Þrátt fyrir að konungar á útbreiðslusvæði fleygrúna hafi margir hverjir verið ólæsir, voru þeir meðvitaðir um gildi þess að skjalfesta varanlega hetjudáðir sínar. Þannig eru til ýmsir munir skreyttir fleygrúnum til minningar um konungana, mestmegnis höggnar í stein. Steinninn var valinn fremur en leir þar sem hann var endingarbetri og sjaldgæfari í óshólmum Efrat og Tígris. [2]

Uppruni fleygrúna[breyta | breyta frumkóða]

Nokkrar mismunandi kenningar eru uppi um hvernig fleygrúnirnar urðu til og þróuðust. Sú fyrsta, og jafnframt vinsælasta, er sú að myndletur, eða myndir sem táknuðu raunverulega hluti, væru grunnurinn að fleygrúnum. Eldri myndletur eða tákn líktust mjög því sem þær lýstu en eftir endurtekna notkun fóru táknin að breytast, verða einfaldari og jafnvel óhlutbundin. Táknin urðu svo fleyglaga, sem gerði fólki kleift að tjá einstök málhljóð og óhlutbundin hugtök.

Önnur kenning, frá Denise Schmandt-Besserat, er sú að fleygrúnir séu í raun sprottnar af notkun þrívíðra leirtákna sem voru nokkurs konar gjaldmiðill, notuð í skiptum fyrir vörur eða þjónustu. Leirtákn voru notuð sem miðill til skrásetningar allt frá 8000 f.Kr. Oft voru notuð fleiri en eitt tákn í hverju tilviki. Þessi tákn voru yfirleitt mjög einföld geómetrísk form eins og kúlur, keilur, skífur og sívalningar, en einnig flóknari og skreytt útskurði. Schmandt-Besserat fann einnig út að í Mesópótamíu til forna voru þessi tákn eða hlutir geymdir í leirhylkjum, prýddum táknum þess sem þau innihéldu. Að lokum hafi leirtöflur, skreyttar fleygrúnum, svo komið í stað hlutanna og hylkjanna.

Af þessum tveimur kenningum má sjá að enn er uppruni fleygrúna nokkuð á huldu. Frekari rannsókna þarf við til að öðlast fullan skilning á því hvernig þetta forna ritform varð til. [3]

Eðli og notagildi[breyta | breyta frumkóða]

Fleygrúnir voru ekki tungumál. Líkt og egypskt híróglýfur og kínversk rittákn voru þær nokkurs konar myndletur sem notaði tákn. Eftir því sem táknin öðluðust viðurkenningu og útbreiðslu í Mið-Austurlöndum, urðu þau þar læsileg fólki af öllum þjóðernum, jafnvel þeim sem töluðu allt önnur tungumál og mállýskur.

Elstu þekktu dæmin um fleygrúnir, útskornar eða ritaðar, þar sem hverju tákni var gefið sitt hljóð, má rekja til Súmera í sunnanverðri Mesópótamíu. Síðar tóku Akkadíar einnig upp táknin, en báru þau fram sem samsvarandi akkadísk orð. Fleygrúnir gengu þannig milli manna og þjóða, frá Akkadíum til Babýloníumanna og svo áfram til Sýrlendinga.

Útbreiðsla fleygrúna utan Mesópótamíu hófst um það bil 3000 f.Kr. þegar landið Elam, nú Suðvestur-Íran, tók þær upp. Um 2000 f.Kr. voru fleygrúnir svo orðnar algildur tjáningarmiðill í rituðum samskiptum meðal þjóða Mið-Austurlanda.

Sýrlenska og babýlonska stórveldið liðu svo undir lok á 7. og 8. öld f.Kr. Þá var arameíska að verða algengasta tungumál svæðisins og fönikískt stafróf að komast í almenna notkun. Fleygrúnir notuðu menn í sífellt minna mæli, þó svo að margir prestar og fræðimenn hafi haldið notkun skriftarformsins á lífi allt til 2. aldar f.Kr. Fleygrúnir hurfu þá af sjónarsviðinu, aðallega vegna þess að þær gátu ekki keppt við stafrófskerfin sem Föníkar, Hebrear, Grikkir og aðrar þjóðir við Miðjarðarhaf höfðu þróað. [4]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. http://www.dension.edu/campuslife/museum/cuneiform.html[óvirkur tengill]
  2. C.B.F. Walker: (1987) bls. 21-34
  3. http://www.dension.edu/campuslife/museum/cuneiform.html[óvirkur tengill]
  4. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 18. febrúar 2010. Sótt 8. febrúar 2010.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]