Christian Jürgensen Thomsen
Christian Jürgensen Thomsen (29. desember 1788 – 21. maí 1865) var danskur fornleifafræðingur og safnamaður. Hann fæddist í Kaupmannahöfn og var búsettur þar.
Foreldrar hans voru Christian Thomsen, virtur og vel stæður stórkaupmaður, og Hedevig Margretha, fædd Jürgensen, sem var af kaupmannsætt. Þau áttu 6 syni og var C. J. Thomsen þeirra elstur. Að ósk föður síns fór hann ungur að fást við skrifstofu- og verslunarstörf í fyrirtæki fjölskyldunnar. Hann hafði þó meiri áhuga á ýmsu öðru, safnaði m.a. mynt og listaverkum (koparstungum), sem leiddi til þess að hann kynntist nokkrum af fremstu safnamönnum Danmerkur. Þetta var þó í fyrstu einungis áhugamál, sem hann fékkst við í frístundum.
Hinn 11. des. 1816 tók Thomsen við af Rasmus Nyerup sem ritari í Nefndinni til varðveislu fornminja (Oldsagskommissionen). Hafði Nyerup gert sér grein fyrir hvað í manninum bjó. Tók Thomsen við umsjón með söfnum nefndarinnar (Det Kongelige Museum for Nordiske Oldsager, öðru nafni Oldnordisk Museum), enduskipulagði þau og kom því til leiðar árið 1819 að þau voru opnuð almenningi. Söfnin voru fyrst á lofti Þrenningarkirkju, bak við Sívalaturn, voru flutt árið 1832 í Kristjánsborgarhöll, og loks árið 1853 í núverandi húsnæði í Prinsens Palæ. Þessi söfn urðu síðar kjarninn í Þjóðminjasafni Dana (Nationalmuseet), sem stofnað var 1892.
C. J. Thomsen átti hugmyndina að því að skipta forsögu mannsins í þrjú tímabil: steinöld, bronsöld og járnöld. Þessi þrískipting hefur síðan orðið grundvöllur fornleifarannsókna í Evrópu og víðar. Thomsen setti þessa hugmynd fram á prenti í ritinu Ledetraad til nordisk Oldkyndighed (1836), en hann hafði þegar um 1825 komist að þessari niðurstöðu og sett forngripasafnið upp með þá skiptingu í huga.
C. J. Thomsen var sjálfmenntaður á sviði fornleifafræði. Hann hafði mikla hæfileika til að safna og skipuleggja og sjá meginlínur í því sem áður hafði virst algjör óreiða. Hann lét ekki eftir sig mörg ritverk, en naut sín best í að sýna söfnin og útskýra á ljóslifandi hátt sögu forngripanna og hlutverk þeirra. Átti hann mikinn þátt í að vekja áhuga meðal almennings á fortíð þjóðarinnar. Hann var ólaunaður til 1832, fékk þá stöðu sem „safnvörður“. Þegar Fornminjanefndin var lögð niður 1849, varð Thomsen loks formlega forstöðumaður safnsins, en J. J. A. Worsaae tók að mestu við umsjón með þjóðminjavörslunni.
Thomsen hafði eitt sinn séð umtalsvert safn af grænlenskum munum í Vínarborg. Heimkominn gerði hann konunginum grein fyrir því að ekki væri við hæfi að ekkert slíkt safn væri í Danmörku. Varð það til þess að hafist var handa við að stofna þjóðfræðisafn, sem opnað var 1849.
Thomsen var sjálfur ástríðufullur myntsafnari og dró saman mikið safn – um 27.000 eintök. Hann arfleiddi Myntdeildina (Møntkabinettet) í Rósenborgarhöll að myntsafni sínu. Safnið nýtti sér 114 danskar myntir, sem vantaði þar, en afgangurinn var seldur á uppboði. Thomsen var forstöðumaður Myntdeildarinnar frá 1842.
Finnur Magnússon var skipaður í Fornminjanefndina um svipað leyti og Thomsen varð ritari (1816), og tókst með þeim náið samstarf. Thomsen var formlega tekinn í nefndina um 1827. Hafa þeir eflaust miðlað hvor öðrum af þekkingu sinni. Meðal þeirra sem stóðu við dánarbeð Finns, 1847, var C. J. Thomsen.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Danska Wikipedian, 27. desember 2007