Fara í innihald

Cappuccino

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Cappuccino með mjólkurlist

Cappuccino eða froðukaffi er ítalskur kaffidrykkur með freyddri mjólk og er borinn fram í 150-180 ml bolla og samanstendur af 1/3 kaffi, 1/3 heitri mjólk og 1/3 mjólkurfroðu. Mjólkin á að blandast kaffinu þannig að hún renni saman við espressó-skotið þannig að bollinn sé með hvítum mjólkurhatti, umluktur af rauðbrúnum kaffihring. Best þykir ef mjólkin (sem hefur verið freydd) minni á húsamálningu eða silki þegar henni er hellt út í kaffið og jafnvægið verður að vera fullkomið milli espressó, mjólkur og froðu.

Cappuccinó drekka flestir á hvaða tíma dagsins sem er, en margir Ítalir snerta hann ekki eftir hádegisbil. Í Bandaríkjunum, og sumstaðar í Evrópu, hefur verið tekinn upp sá siður að afgreiða cappuccinó með 1,2 eða 3 skotum af kaffi. Á Íslandi hefur þó haldist sá siður að halda honum klassískum.

Orðið „cappuccino“ á uppruna sinn að rekja til munkareglu sem nefndist: Regla Capuchin-bræðra. Þeir gengu berfættir (einnig nefndir berfættisbræður á íslensku) og voru hliðarregla út frá fransiskumunkunum sem voru betlimunkar af reglu Frans frá Assisi. „Capa“ heitir kápa eða kufl á latínu, en hettan á kuflinum var nefnd: cappuchio á miðaldalatínu. Munkar þessir tóku nafn af hettunni og voru nefndir Capuchin-bræður eða Capuchin-munkar. Kaffidrykkurinn tók svo nafn af þeim því mjólkurfroðan minnir á hvítt höfuðfat sem lagt er yfir kaffið.