Fara í innihald

Breiðnefur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Breiðnefur

Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Spendýr (Mammalia)
Ættbálkur: Nefdýr (Monotremata)
Ætt: Breiðnefsætt (Ornithorhynchidae)
Ættkvísl: Breiðnefir (Ornithorhynchus)
Blumenbach, 1800
Tegund:
Breiðnefur

Tvínefni
Ornithorhynchus anatinus
(Shaw, 1799)
Heimkynni breiðnefsins
Heimkynni breiðnefsins

Breiðnefur (fræðiheiti: Ornithorhynchus anatinus)[1] er spendýr af breiðnefsætt. Þrátt fyrir að breiðnefurinn sé spendýr hefur hann enga spena en afkvæmi hans nærast á mjólk sem móðirin seytir um húðfellingu líkt og hjá mjónefjum (fræðiheiti: Tachyglossus aculeatus). Breiðnefurinn er, ásamt mjónefum, síðasta eftirlifandi tegund nefdýraættbálksins. Í lok 18. aldar barst skinn af furðulegri skepnu til London frá Ástralía. Það var breiðnefur eða ,,vatnamoldvarpa“ eins og landnemar í Ástralíu kölluðu dýrið og síðar meir var dýrinu gefið latneska heitið Ornithorhyncus, þ.e. „fuglsnefur“. Það er vísindaheitið yfir þessar lífverur en hér á Íslandi nefnist dýrið breiðnefur. Dýrið er með gogg og sundfit eins og fugl, en skríður um og verpir eggjum eins og dýr af skriðdýraætt. Þrátt fyrir þessar staðreyndir er hann spendýr og má sjá að breiðnefurinn er með loðinn feld sem er tákn spendýra. Þegar átti að greina dýrið og í hvaða flokki það ætti heima komu vísindamenn sér saman um að um spendýr væri að ræða þrátt fyrir að dýrið liti ekki út sem slíkt. En í hópi spendýra eru þó margar gjörólíkar lífverur, t.d. ljón, fílar og menn.[2]

Breiðnefurinn lifir í vatni í Eyjaálfu, og finnst helst í ám í austanverðri Ástralíu. Þótt aðalheimkynni dýrsins séu í því landi er breiðnefurinn ekki útbreiddur um Ástralíu. Eins og útbreiðslukortið hér til hliðar sýnir hefur einnig mátt finna dýrið á eyjunni Tasmaníu. Þar sem breiðnefurinn er vatnadýr og þarf stöðugan aðgang að vatni getur hann ekki lifað hvar sem er. Í vatni á breiðnefurinn auðvelt með að athafna sig. Feldur hans er vatnsfráhrindandi og hann syndir auðveldlega í ám og vötnum því hann hefur þróað með sér sundfit á milli tánna.

Breiðnefur í öllu sínu veldi

Útlit breiðnefsins verður að teljast mjög sérkennilegt, sem varð til þess að þegar vísindamenn kynntu þetta spendýr fyrir heiminum töldu margir að um grín eða fölsun væri að ræða. Dýrinu svipar til kanínu í hárafari og stærð. En hinn loðni feldur er ekki það sérkennilega í útliti breiðnefsins því dýrið er með sundfit milli táa og stóran flatan gogg eins og önd. Þegar vísindamenn fengu dýrið inn á borð til sín kom síðan á óvart að goggur dýrsins var ekki harður eins og fuglsnef heldur mjúkur og leðurkenndur.[3]

Fæða breiðnefsins er fjölbreytt en hann nærist helst á alls kyns smádýrum. Þau finnur hann á árbotninum og er þar helst um að ræða alls kyns vatnaskordýr, smákrabba, vatnarækjur, snigla, orma, halakörtur og smáfisk.

Fæðuöflun

[breyta | breyta frumkóða]

Breiðnefurinn býr sér til bæli við ár- og vatnsbakka. Í þessu bæli heldur breiðnefurinn mikið til og þá sérstaklega yfir daginn og á næturnar. Í ljósaskiptunum fer hann á stjá í matarleit. Þar fer hann að dæmi margra fiska sem einnig afla sér helst fæðu í ljósaskiptunum. Þótt breiðnefir séu helst á ferli við fæðuöflun í ljósaskiptunum geta þeir einnig verið virkir í fæðuöflun á daginn ef þoka er og rigning.

Nokkrar staðreyndir um breiðnefinn

[breyta | breyta frumkóða]
  • Breiðnefurinn og mjónefurinn eru einu spendýrin í heiminum þar sem kvendýrið þroskar ekki fóstur sín inni í líkamanum heldur verpir eggjum.
  • Líkamshiti breiðnefsins er aðeins um 32°C en hann hefur þó engu að síður jafnheitt blóð.
  • Á afturfótum karldýrsins eru sporar og við þá eiturkirtlar.
  • Um aldamótin 1900 var breiðnefurinn veiddur vegna feldsins.
  1. Atli Magnússon og Örnólfur Thorlacius. (2003). Dýraalfræði fjölskyldunnar. Reykjavík: Skjaldborg ehf.
  2. David Attenborough. Óskar Ingimarsson þýddi. Lífið á jörðinni. Reykjavík: Mál og menning.
  3. David Attenborough. Óskar Ingimarsson þýddi. Lífið á jörðinni. Reykjavík: Mál og menning.
  • Andanefja breiðnefur, 1799
  • Útbreiðslusvæði breiðnefsins Geymt 4 júní 2011 í Wayback Machine
  • „Eru til eitruð spendýr“. Vísindavefurinn.
  • „Hvert er nefdýr spendýr eða skriðdýr“. Vísindavefurinn.
  • „Hvað getið þið sagt mér um breiðnef?“. Vísindavefurinn.


  Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.