Botnmálning

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Skipsskrokkukr með nýrri botnmálningu.

Botnmálning er sérstök málning til að mála með botn á bátum (að utanverðu). Hún er hönnuð með það fyrir augum að koma í veg fyrir að gróður myndist á skrokk bátsins neðan sjólínu sem annars myndi draga úr siglingarhæfni bátsins og eyðileggja skrokkinn á trébátum. Botnmálning getur líka haft það hlutverk að hindra tæringu á stálbátum eða auðvelda flæði vatns umhverfis skrokkinn á keppnisbátum.

Á skútuöld áttu skip oft í miklum vandræðum með hrúðurkarla og þara sem greri á skipsskrokknum og dró verulega úr siglingarhæfni skipsins. Koparþynnur voru festar á botn bátsins til að koma í veg fyrir þetta.

Nútíma botnmálningar innihalda gjarnan koparoxíð eða önnur eiturefni, svo sem lífræn efnasambönd tins, sem koma í veg fyrir gróðurmyndun. Vörnin eyðist með tímanum og því þarf að endurnýja botnmálninguna reglulega. Slíkar botnmálningar valda mismikilli mengun en gerðar hafa verið tilraunir með botnmálningar sem ekki innihalda kopar eða tin. Algengt var að TBT (tributýltin) væri notað í þessar málningar en efnið getur meðal annars valdið tvíkynjun nákuðunga.