Blanka af Búrgund

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Blanka af Búrgund.
Blanka af Búrgund.

Blanka af Búrgund (um 129629. apríl 1326) var fyrsta kona Karls 4. Frakkakonungs. Hún var dóttir Ottós 4. greifa af Búrgund.

Blanka giftist Karli prinsi, sem var þriðji sonur Filippusar 4. Frakkakonungs, 20. maí 1308. Snemma árs 1314 var hún handtekin ásamt Margréti af Búrgund frænku sinni og mágkonu, sem gift var Loðvík prinsi, bróður Karls (síðar Loðvík 10.). Þær voru sakaðar um framhjáhald og var eitt helsta vitnið gegn þeim Ísabella mágkona þeirra, kona Játvarðs 2. Englandskonungs.

Systir Blönku, Jóhanna af Búrgund, sem gift var þriðja bróðurnum, Filippusi (síðar Filippus 5.), dróst einnig inn í málið en var hreinsuð af sök. Blanka og Margrét voru aftur á móti dæmdar sekar og varpað í dýflissu í kastalanum Château-Gaillard. Þar dó Margrét ári síðar.

Blanka var enn í dýflissunni þegar Karl eiginmaður hennar var krýndur konungur Frakklands 1322 og varð því drottning Frakklands þótt hún kæmi aldrei fram sem slík. Karl hafnaði náðunarbeiðni frá henni og fékk Jóhannes XXII páfa til að ógilda hjónabandið 19. maí sama ár. Blanka var þó flutt í klaustur og dó þar fáeinum árum síðar, enda farin að heilsu eftir vistina í dýflissunni.

Blanka og Karl áttu tvö börn sem bæði voru dáin þegar hjónaband þeirra var gert ógilt, Filippus (1314-1322) og Jóhönnu (1315-1320).

Heimild[breyta | breyta frumkóða]