Björn Grímsson málari
Björn Grímsson (f. um 1575, d. 1634/35) var sýslumaður sem er einn allra fyrsti nafngreindi málari í íslenskri listasögu. Honum eru eignaðar með fullri vissu listafagrar handritateikningar og út frá þeim hefur verið giskað á að hann hafi málað predikunarstól úr kirkjunni í Bræðratungu sem er einn af öndvegisgripum Þjóðminjasafns.
Ævi og ferill
[breyta | breyta frumkóða]Björn var sonur séra Gríms Skúlasonar í Hruna, þekkts skrifara sem skildi eftir sig myndskreyttar lögbækur. Fátt er vitað um lífshlaup Björns en hann mun þó hafa ferðast til Hamborgar og dvalist þar hjá tengdafólki. Líklegt má telja að hann hafi nýtt ferðina til að leita sér þjálfunar í málaralistinni.
Hann varð sýslumaður í Árnesþingi árið 1628 og sinnti embættinu til dauðadags eða nokkru fyrr. Virðist hann hafa starfað fram að þessu sem umboðsmaður og undir verndarvæng Gísla Hákonarsonar lögmanns, sem sat í Bræðratungu. Hafa þau tengsl verið höfð til sönnunar því að Björn hafi málað prédikunarstólinn á staðnum, sem talinn er frá tímum Gísla.
Björn átti í góðu sambandi við Höllu systur sína og ritaði hann upp og myndskreytti fyrir hana Jónsbókarhandrit árið 1603, sem er honum merkt. Árið 1614 útbjó Björn enn glæsilegra handrit sem sagt hefur verið eitt af fallegustu íslensku handritunum. Myndskreytingar þess báru vott um talsverða færni og kunnáttu í evrópskri samtímamyndlist.
Þorsteinn Björnsson
[breyta | breyta frumkóða]Í riti sínu Sýslumannsæfir rekur Bogi Benediktsson óvenjulega sögu sem gekk meðal alþýðu manna Björn málara. Samkvæmt henni hafði Björn, sem að öðru leyti var aldrei við konu kenndur, heimsótt Höllu systur sína að Skógum. Þar hafi hann búið sig til hvílu í kirkjunni og beðið systur sína að senda sér vinnukonu sína, enda væru það forlög sín að eignast son, sem verða myndi prestur ef hann væri getinn á helgum stað. Varð vinnukonan þunguð eftir og eignaðist soninn Þorstein sem síðar varð prestur að Útskálum.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Þóra Kristjánsdóttir: Elstu nafngreindu myndlistarmenn Íslendinga. Lesbók Morgunblaðsins, 18. des. 1999, bls. 4-6.