Fara í innihald

Bessastaðaskóli

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bessastaðaskóli var eina íslenska menntastofnunin á árunum 1805-1846. Hann tók við af Hólavallarskóla en Lærði skólinn (síðar Menntaskólinn í Reykjavík) var arftaki hans. Skólinn var á Bessastöðum á Álftanesi.

Upphaf skólans

[breyta | breyta frumkóða]

Húsakynni Hólavallarskóla, sem var á Hólavelli við Reykjavík frá 1785, voru afar léleg og héldu hvorki vatni né vindi. Þurfti að hætta skólahaldi um miðjan vetur 1804 og árið 1805 var því ákveðið að flytja skólann í Bessastaðastofu, sem var eitt af fáum steinhúsum landsins og hafði verið reist á árunum 1761-1766 sem embættisbústaður Magnúsar Gíslasonar amtmanns. Trampe stiftamtmaður vildi heldur búa í Reykjavík og lét skólanum Bessastaðastofu eftir.

Skólinn skiptist í efri og neðri bekk og hafði hvor sína stofu niðri en auk þess var þar borðstofa. Skólasveinar sváfu á loftinu. Kennarar bjuggu yfirleitt á jörðum í nágrenni skólans og héldu þar búfénað. Fyrsta veturinn sem skólinn starfaði voru þar 27 nemendur, sá yngsti 17 ára en sá elsti 28 ára. Annars voru yfirleitt 40 piltar í skólanum en 50 síðasta veturinn sem hann starfaði á Bessastöðum. Árið 1809 var ákveðið að þeir sem teknir væru í skólann skyldu ekki vera eldri en 18 ára en undanþágur frá því voru mjög oft gefnar. Framan af útskrifuðust að jafnaði 6-8 stúdentar á ári.

Flestir nemendur skólans voru synir embættismanna og betri bænda. Þeir sem ekki áttu auðuga aðstandendur gátu þó sótt um skólaölmusu (námsstyrk) sem nam 40 ríkisdölum á ári en var hækkað árið 1815 upp í 60 ríkisdali. Alls var úthlutað 24 heilum ölmusum á ári. Ölmusan gekk beint til bryta skólans og fór í að borga fæðiskostnað.

Námsgreinar

[breyta | breyta frumkóða]

Kennarar voru þrír til 1822 en þá var mælingafræði bætt við námsgreinar og kennsla í reikningslist aukin og þá bættist fjórði kennarinn við. Kennt var í 37 tíma á viku, frá 1. október til loka maímánaðar, og kennslugreinarnar voru: Guðfræði og skilgreining Nýja testamentisins, gríska, hebreska, latína, danska, mannkynssaga, landafræði, íslenskar stílæfingar, reikningur og mælingarfræði.

Nemendur voru prófaðir tvisvar sinnum á ári, um miðjan vetur og aftur um vorið.

Meginhlutverk skólans var tvíþætt, annars vegar að búa nemendur undir framhaldsnám við Kaupmannahafnarháskóla en hins vegar að mennta presta því að stúdentspróf úr skólanum dugði til að fá prestvígslu. Fjórðungur til þriðjungur stúdentanna fór til náms í Kaupmannahöfns að loknu stúdentsprófi.

Að því kom að þetta fyrirkomulag þótti ekki geta gengið upp nema með því að fjölga bekkjum en til þess þurfti stærra húsnæði. Varð því úr eftir umræður í allmörg ár að skólinn var fluttur til Reykjavíkur, þar sem Lærði skólinn tók til starfa haustið 1846.

Svo til allir menntamenn og embættismenn Íslands sem voru ungir menn á fyrri hluta 19. aldar stunduðu nám í skólanum og skólinn átti því mikinn þátt í þróun íslenskra mennta og menningar á öldinni. Þar gegndu kennarar hans lykilhlutverki.

Fyrsti rektor (lector) skólans var Steingrímur Jónsson, síðar biskup. Jón Jónsson í Lambhúsum (kennari frá 1805) tók við af honum 1810 og stýrði skólanum allt þar til hann fluttist til Reykjavíkur, eða í 36 ár. Þá tók Sveinbjörn Egilsson við en hann hafði verið kennari við skólann frá 1819. Aðrir kennarar við skólann voru málvísindamaðurinn Hallgrímur Scheving (frá 1810), Björn Gunnlaugsson náttúruvísindamaður (frá 1822), Guttormur Pálsson (1805-1807), Jón Jónsson málfræðingur (1807-1817), Árni Helgason (1817-1819) og Gísli Magnússon málfræðingur (1845-1846).

  • Svavar Þór Guðmundsson: Þættir úr sögu Bessastaðaskóla 1805–1846, Rvík 2006, 96 s.
  • „Skólahald á Bessastöðum. Á vef forsetaembættisins“.
  • „Bessastaðaskóli. Tímarit hins íslenzka bókmenntafélags 1893“.