Fara í innihald

Bertrade de Montfort

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Bertrade de Montfort. Mynd frá 13. öld.

Bertrade de Montfort (um 107014. febrúar 1117) var frönsk hefðarkona sem giftist Filippusi 1. Frakkakonungi árið 1092 en þá áttu þau raunar bæði maka á lífi og hjónabandið tæpast gilt. Bertrade telst þó yfirleitt hafa verið drottning Frakklands frá 1092 til 1108, þegar Filippus dó.

Bertrade var dóttir Símonar 1. af Montfort og Agnesar greifynju af Evreux. Hún var fimmta (líklega) og síðasta kona Fulks 4., greifa af Anjou, sem varð ástfanginn af henni, sagði skilið við konu sína og giftist henni 1189. Þau eignuðust saman soninn Fulk, sem síðar varð konungur Jerúsalem og var afi Hinriks 2. Englandskonungs. En árið 1092 yfirgaf Bertrade mann sinn og tók saman við Filippus konung, sem sagði skilið við Bertu drottningu og giftist Bertrade 15. maí 1092. Hann var svo ástfanginn af henni að hann neitaði að láta hana frá sér þótt páfi hótaði honum bannfæringu.

Árið 1095 bannfærði Úrban II páfi svo Filippus og hindraði hann í því að taka þátt í Fyrstu krossferðinni. Bannfæringunni var aflétt nokkrum sinnum við það að Filippus hét að segja skilið við Bertrade en hann tók alltaf saman við hana aftur og á endanum gáfust kirkjunnar menn upp og sættu sig við hjónabandið. Berta var þá löngu dáin en Fulk var enn á lífi og lifði raunar ári lengur en Filippus. Í samtímaheimild segir að konungur hafi mörg síðustu ríkisstjórnarár sín verið svo heltekinn af ást á Bertrade að hann hafi varla sinnt nokkru öðru og misst allan áhuga á stjórn ríkisins. Sagnaritarinn Jean de Marmoutier segir um Bertrade að enginn maður hafi nokkru sinni hrósað henni fyrir neitt annað en fegurð.

Bertrade og Filippus áttu eina dóttur og tvo syni. Bertrade var mjög í mun að annarhvor sonur hennar erfði ríkið en ekki Loðvík stjúpsonur hennar og sendi meðal annars Hinrik 1. Englandskonungi bréf og bað hann að taka Loðvík höndum. Einnig var því haldið fram að hún hefði reynt að koma honum fyrir kattarnef, fyrst með fjölkynngi og síðan með göldrum. En tilraunir hennar mistókust og Loðvík tók við ríkjum þegar faðir hans dó 1108. Bertrade, sem þá var að sögn enn afar fögur, gerðist þá nunna í Fontevraud-klaustri, þar sem hún dó 1117.