Berta af Hollandi
Berta af Hollandi (um 1055 – 1093) var drottning Frakklands frá 1072 til 1092 en þá sagði Filippus konungur skilið við hana og tók sér aðra konu.
Berta var dóttir Floris 1., greifa af Hollandi, og konu hans, Geirþrúðar af Saxlandi. Floris dó 1061 og Geirþrúður giftist Róbert 1. greifa af Flæmingjalandi, sem kallaður var Róbert Fríslendingur. Hann gerði friðarsamning við Filippus 1. Frakkakonung árið 1072 og í þeim samningi fólst meðal annars að Filippus skyldi ganga að eiga Bertu.
Níu ár liðu þar til Berta fæddi ríkiserfingjann Loðvík og er sagt að einsetumaðurinn Arnoul hafi beðið fyrir frjósemi drottningar og og gefið drengnum nafn. Þau eignuðust síðan fleiri börn, þar á meðal dótturina Konstönsu, sem giftist Húgó 1. af Champagne og síðan Bohemund 1. af Antiokkíu, og soninn Karl, sem varð ábóti.
Árið 1092 sagði Filippus skilið við Bertu á þeirri forsendu að hún væri of feit. Hann kom Bertu fyrir í virkinu Montreuil-sur-Mer, þar sem hún var í stofufangelsi, tók saman við Bertrade de Montfort, greifynju af Anjou og giftist henni þótt bæði ættu maka á líf. Berta dó ári síðar.
Heimild
[breyta | breyta frumkóða]- Fyrirmynd greinarinnar var „Bertha of Holland“ á ensku útgáfu Wikipedia. Sótt 30. september 2010.