Fara í innihald

Benedikt Hersten

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Benedikt Horsten)

Benedikt Hersten (einnig skrifað Histen, Hesten, Horsten, Holsten) var hirðstjóri á Íslandi um aldamótin 1500.

Björn Jónsson segir í Skarðsárannál að Benedikt Hersten hafi orðið hirðstjóri 1499. Sumarið 1500 útnefndi hann á Alþingi ásamt Finnboga Jónssyni lögmanni 24 manna dóm til að skera úr um erfðadeilu þá sem kölluð hefur verið Möðruvallamál. Á sama þingi fékk hann dæmdan dóm um verslun og fiskveiðar Englendinga á Íslandi.

Benedikts Hersten er síðast getið 18. júlí 1502, þegar hann gefur Vigfús Erlendsson kvittan og ákærulausan fyrir „það högg eða blak eða tilræði sem hann veitti Þórði Brynjólfssyni í kirkjudyrunum eða kirkjugarðinum á Krossi í Landeyjum“. Eftir það er hans ekki getið og hefur hann sjálfsagt farið úr landi um haustið því sumarið eftir er Kai von Ahlefeldt tekinn við hirðstjórn.


Fyrirrennari:
Pétur Kláusson
Hirðstjóri
(14991502)
Eftirmaður:
Kai von Ahlefeldt