Benedikt Hjartarson
Benedikt Hjartarson (f. 9. júlí 1957) var fyrstur Íslendinga til að synda yfir Ermarsund. Hann er næstelstur sex systkina og ólst upp í Fossvogi. Hann kvæntist Elínu Borg árið 1980 og þau hafa alla tíð búið á Freyjugötu. Þau eiga þrjár dætur og tvö barnabörn.
Benedikt lauk sveinsprófi í bakstri frá Iðnskólanum í Reykjavík árið 1978 og meistaraprófi árið 1982. Hann nældi sér í meiri menntun í bakstri í Graz í Austurríki og Bolzano á Ítalíu.
Benedikt vildi halda upp á fimmtugsafmælið sitt, árið 2007, með óhefðbundnum hætti og ákvað að reyna við Ermarsundið. Hann varð frá að hverfa í það skiptið. Benedikt tókst þrekvirkið í annarri tilraun, 16. júlí 2008. Benedikt segir aðalmuninn á tilraunum sínum vera skipstjórann Andy King. Eftir um níu klukkustunda sund var Benedikt tilkynnt að hann hefði misst af höfðanum Cap de Grinez, þar sem hann hafði stefnt að landtöku. Honum var skapi næst að hætta en skipstjórinn hótaði að lemja hann með ár í hausinn ef hann vogaði sér að koma um borð. Benedikt synti yfir 60 km á rétt rúmum 16 klukkustundum og tók um 48 þúsund sundtök til að ná landi í Frakklandi.
Benedikt var elstur til að synda yfir Ermarsund árið 2008, þá 51 árs.
Árið 2012 kom út heimildarmyndin Sundið, eftir Jón Karl Helgason en í henni var fjallað um kapphlaup Benedikts Hjartarsonar og Benedikts Lafleur að verða fyrsti Íslendingurinn til að synda yfir Ermarsund. Myndin var tilnefnd til Edduverðlauna.